Áreittar kynferðislega í æfingabúðum

Moses Kipsiro, bronsverðlaunahafi frá HM í Osaka 2007, segir að …
Moses Kipsiro, bronsverðlaunahafi frá HM í Osaka 2007, segir að lögregla hafi ekkert viljað gera í málinu. AFP

Hópur afrekshlaupara í Úganda hefur sakað einn þjálfara sinna um kynferðislega áreitni í æfingabúðum landsliðsins fyrir afríska meistaramótið í víðavangshlaupi.

Umræddur þjálfari er sagður hafa komið inn í herbergi kvenkyns hlaupara og áreitt þær um miðjar nætur.

„Hann hótaði að senda okkur heim ef við gerðum ekki eins og hann sagði. Við höfðum engan kvenkyns þjálfara sem við gátum leitað til. Þetta var hræðilegt,“ sagði einn hlauparanna við blaðið Daily Monitor.

„Suma daga skipaði hann okkur að koma til sín í húsið sem hann bjó í. Ef maður neitaði að gera það sem hann vildi þá lét hann höggin dynja,“ bætti hún við.

Moses Kipsiro, fyrirliði úgandska liðsins og fyrrverandi bronsverðlaunahafi frá HM í 5.000 metra hlaupi, greip inn í þegar hann heyrði af athæfi þjálfarans. Kvörtun var send til frjálsíþróttasambands Úganda og lögreglunnar en hvorugur aðilanna hefur enn nokkuð aðhafst í málinu. Talsmaður frjálsíþróttasambandsins segir að ásakanirnar eigi ekki við rök að styðjast.

Samkvæmt Kipsiro sagði þjálfarinn konunum að þær yrðu að stunda kynlíf eða eignast börn til að geta hlaupið hraðar.

„Kenningin hans var sú að eftir því sem klof kvenmanns væri víðara, því betur gæti hún hreyft fæturna. Ég fékk algjört áfall. Ég skammast mín bara fyrir að tala um sumt af því sem gerðist í þessum æfingabúðum,“ sagði Kipsiro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert