Fín frammistaða í liðakeppni í júdó

Íslandsmeistararnir Egill Blöndal og Anna Soffía Víkingsdóttir voru bæði í …
Íslandsmeistararnir Egill Blöndal og Anna Soffía Víkingsdóttir voru bæði í eldlínunni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ásta Lovísa Arnórsdóttir og Anna Soffía Víkingsdóttir kepptu fyrir Íslands hönd í liðakeppni í júdó á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í dag. Ásta keppti í -69 kg flokki og Anna í -78 kg flokki. Alls mátti hver þjóð senda þrjá keppendur í keppnina, einn í hverjum flokki. Ísland sendi hins vegar engan í -52 kg flokkinn og var liðinu því sjálfkrafa dæmt eitt tap í hverri viðureign.

Fyrsta viðureign Íslands var gegn Lúxemborg, þar tapaði Ásta fyrir Manon Durbach og Anna fyrir Lynn Mossong. Því næst mættu þær íslensku keppendum frá Svartfjallalandi og þurftu þær að sætta sig við töp gegn þeim Ivana Sunjevic og Jovana Pekovic. 

Íslenska liðið hafði hins vegar betur gegn Andorra í næstu umferð. Ásta vann Lia Ruiz og Anna hafði betur gegn Laura Lopez. Ísland mætti loks Liechtenstein í síðustu umferðinni. Ásta varð að gera sér að góðu að tapa fyrir Judith Biedermann á meðan Anna vann Anja Kaiser. Ísland tapaði hins vegar viðureigninni þar sem Liechtenstein vann sjálfkrafa -52 kg flokkinn. 

Í karlaflokki var svipuð staða hjá íslenska liðinu. Gísli Vilborgarson mætti til leiks í -81 kg flokki og Egill Blöndal í -100 kg flokki. Ísland sendi hins vegar ekki keppanda til leiks í -66 kg flokki. Karlaliðið mætti Svartfjallalandi og Liechtenstein og þurfti að sætta sig við 2:1 tap í báðum viðureignum. 

Egill Blöndal vann Svartfellinginn Danilo Pantic en þurfti að sætta sig við tap gegn David Buechel frá Liechtenstein. Gísli þurfti að lúta í lægra haldi gegn Arso Milic frá Svartfjallalandi en hann hafði betur gegn Oliver Grimm frá Liechtenstein. 

Íslensku keppendurnir fara því án verðlauna frá keppni í júdó, en geta borið höfuðið hátt undir þessum erfiðu kringumstæðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert