„Ég var brjálaður“

Kolbeinn Höður annar frá hægri á fleygiferð í San Marínó.
Kolbeinn Höður annar frá hægri á fleygiferð í San Marínó. Ljósmynd/GSSE

Spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson lenti í vægast sagt nákvæmum úrskurði þegar hann var dæmdur úr leik í 100 metra hlaupi á Smáþjóðaleikunum í San Marínó. Hann var fljótastur í undanrásunum en var dæmdur úr leik eftir á fyrir þjófstart. Var sá úrskurður vægast sagt á mörkunum en Kolbeinn segist beygja sig undir reglurnar.

„Tæknilega séð þá lagði ég af stað eftir að ræsirinn skaut úr byssunni. Löglegt start þarf að gerast 0,1 sekúndur á eftir hljóðinu úr byssunni en ég fór af stað 0,089 sekúndum eftir að hljóðið heyrðist úr byssunni samkvæmt mótshöldurum. Mér leið ekki eins og ég væri að þjófstarta en ég verð að sætta mig við úrskurðinn eins og margir aðrir hafa þurft að gera í gegnum tíðina. Ekkert annað við því að gera fyrir mig en að koma á leikana eftir tvö ár og sanna mig í 100 metrunum,“ útskýrði Kolbeinn í samtali við mbl.is. 

Þótt Kolbeinn sé búinn að setja atvikið aftur fyrir sig þá neitar hann því ekki að hafa orðið brjálaður þegar atvikið átti sér stað.

„Ég var brjálaður. Ég nánast grátbað mótshaldara um að leyfa mér að hlaupa aftur en þau bönnuðu mér það. Maður verður bara að lúta reglunum,“ sagði Kolbeinn sem bætti sér upp þessi vonbrigði og nældi í tvenn gullverðlaun í gær. Sigraði í 200 metra hlaupinu og einnig í 4x100 metra boðhlaupi.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert