Ragnhildur og Haraldur best á árinu

Ragnhildur Kristinsdóttir er kvenkylfingur ársins 2023.
Ragnhildur Kristinsdóttir er kvenkylfingur ársins 2023. mbl.is/Óttar Geirsson

Ragnhildur Kristinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús hafa verið útnefnd kylfingar ársins af Golfsambandi ársins. Er Ragnhildur að fá viðurkenninguna í fyrsta skipti og Haraldur í fjórða skipti.

Ragnhildur lék á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur á LET Access mótaröðinni í Evrópu, þeirri næststerkustu í álfunni. Hún lék á tólf mótum á mótaröðinni og náði best 22. sæti í móti í júlí.

Þá varð hún Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta skipti í ágúst og komst á lokastig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina.

Haraldur Franklín Magnús er karlkylfingur ársins 2023.
Haraldur Franklín Magnús er karlkylfingur ársins 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Franklín lék á þrettán mótum á Áskorendamótaröðinni í Evrópu í ár, en hún er einnig næststerkasta mótaröð Evrópu. Hann komst níu sinnum í gegnum niðurskurðinn og náði best 19. sæti í móti í júní.

Hann komst í fyrsta sinn á lokastig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í nóvember og tryggði sér þar takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili ásamt fullum þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni.

Birgir Leifur Hafþórsson hefur hlotið nafnbótina oftast, eða ellefu sinnum. Ólafía Þórunn er sigursælust í kvennaflokki en hún hefur sex sinnum verið útnefnd kvenkylfingur ársins.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert