Fær ekki krónu fyrir sögulegan sigur

Nick Dunlap sigurreifur með verðlaunabikarinn á American Express-mótinu um helgina.
Nick Dunlap sigurreifur með verðlaunabikarinn á American Express-mótinu um helgina. AFP/Sean M. Haffey

Áhugamaðurinn Nick Dunlap kom, sá og sigraði á American Express-mótinu, sem er hluti af PGA-mótaröðinni í golfi, í La Quinta í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum um helgina.

Varð Dunlap þar með fyrsti áhugamaðurinn til þess að vinna mót á PGA-mótaröðinni síðan Phil Mickelson gerði slíkt hið sama fyrir rúmum þremur áratugum, árið 1991.

Verðlaunaféð fyrir sigurinn á mótinu er ansi drjúg, 1,5 milljónir bandaríkjadala, sem jafngildir 205 milljónum íslenskra króna.

Dunlap sér þó ekki grænan eyri af þeirri upphæð þar sem reglur PGA-mótaraðarinnar kveða um að áhugamenn geti ekki unnið sér inn verðlaunafé.

Christiaan Bezuidenhout, sem hafnaði í öðru sæti, einu höggi á eftir Dunlap, er hins vegar atvinnumaður og kemur því öll upphæðin í hans hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert