Tiger Woods hefur trú á sigri

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP/Andrew Redington

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hefur trú á því að hann geti unnið Masters-mótið í Augusta í Georgíuríki í Bandaríkjunum en til þess þurfi allt að ganga upp.

„Ef allt smellur saman tel ég að ég geti unnið einn titil til viðbótar,“ sagði Woods á fréttamannafundi í gær.

Hann hefur á ferlinum unnið Masters-mótið fimm sinnum, næst oftast allra, og alls 15 stórmót.

Undanfarin ár hafa markast af þrálátum meiðslum hjá Woods og hefur hann ekki spilað fjóra hringi, 72 holur, í keppni í rúmt ár.

Það gerði hann síðast á Genesis Invitation-mótinu í febrúar árið 2023.

Woods á rástíma á Masters-mótinu á morgun klukkan 17.24 að íslenskum tíma. Hann verður í ráshópi með Jason Day og Max Homa fyrstu tvo dagana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert