Meiðsli Arnórs ekki alvarleg

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. mbl.is/Golli

Hægri hornamaðurinn, Arnór Þór Gunnarsson, fékk högg á kálfa í leiknum í fyrri leiknum á móti Serbíu en segist vera orðinn fullfrískur.

„Ég fékk smáhögg á kálfann þegar ég fékk blokk á mig frá línumanninum. Ég fann að ég stífnaði upp í kálfanum og þegar ég kom heim var ég orðinn svolítið stífur. Ég fann lítið fyrir þessu í leiknum því þá var maður heitur. Ég fór beint til Ella (Elísar Þórs Rafnssonar sjúkraþjálfara) daginn eftir. Þar fékk ég nudd og fór í einhverjar bylgjur. Í framhaldinu var lyftingaæfing þar sem ég fann lítið fyrir þessu og í dag er ég bara fínn. Tel mig vera kláran í slaginn. Elli og Pétur (Örn Gunnarsson sjúkraþjálfari) eru náttúrlega snillingar og kunna sitt fag,“ sagði Arnór þegar Morgunblaðið rædd við hann í Serbíu í gær.

Arnór lék einn sinn besta A-landsleik frá upphafi þegar Serbarnir voru gjörsigraðir 38:22 í Laugardalshöllinni og skoraði 9 mörk. Hann býst við mikilli stemningu í Nís þrátt fyrir að Serbarnir hafi fengið skell í Reykjavík.

„Ég býst við hörkuleik. Ég hef talað við nokkra Serba sem ég þekki á Íslandi. Þeir fullyrða að það verði full höll og brjáluð læti. Serbarnir koma allt öðruvísi stemmdir í þennan leik heldur en í leikinn á miðvikudaginn. Við þurfum að berjast verulega fyrir stigunum og það verða allir á móti okkur í höllinni. Mér finnst nú oft gaman að spila leiki við slíkar aðstæður en eins og ég segi þá verða Serbarnir miklu sterkari en í fyrri leiknum. Við verðum að vera tilbúnir í slaginn því þetta verður hörkuleikur, “ sagði Arnór ennfremur sem hefur tryggt sér byrjunarliðssæti í landsliðinu á þessu ári. Hægri hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson fór einnig með hópnum til Serbíu og er því til taks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert