Gríðarlega góð tilfinning

Grótta fagnar titlinum.
Grótta fagnar titlinum. mbl.is / Eggert Jóhannesson

„Við lékum vel frá fyrstu mínútu leiksins og vorum afar þéttar varnarlega strax frá upphafi. Mér fannst við betri aðilinn á flestum sviðum og sigurinn var nokkuð þægilegur og sanngjarn að mínu mati,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, sem varð Íslandsmeistari eftir 28:23 sigur gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi deildarinnar í dag. 

„Mér fannst spennustigið vera full hátt hjá okkur á föstudaginn var og umgjörð leiksins átti þátt í því. Við vorum vel stemmdar í þessum leik og spiluðum afar vel að mínu mati. Það er góð tilfinning að takast að klára ætlunarverk okkar. Tapið í bikarúrslitleiknum varð til þess að liðið varð mjög hungrað í Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Kári um spilamennsku Gróttu í leiknum. 

„Það var afar ljúft að vera með góða forystu allan seinni hálfleikinn og þetta var aðeins þægilegra en í fyrra þegar við tryggðum okkur Íslandsmeistaratitilinn með marki á lokasekúndunni. Það er mjög góð tilfinning að vera komin með gullverðlaunapeninginn um hálsinn og vita að ég er að fara að fagna með okkar frábæru stuðningsmönnum í kvöld,“ sagði Kári aðspurður um það hvað bærðist um í brjósti hans.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert