Stórkostlegur árangur hjá liðinu

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Gróttu.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Gróttu. mbl.is / Eggert Jóhannesson

„Þetta var eittvað sem við ætluðum okkur strax frá því að úrslitakeppnin byrjaði og við sáum þetta fyrir okkur sem þrjár skorpur. Við náðum stórkostlegum árangri að tapa einungis einum leik í úrslitakeppninni,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, einn af máttarstólpum Gróttu, sem varð Íslandsmeistari í handknattleik kvenna í dag með 28:23 sigri sínum gegn Stjörnunni í fjórða leiknum í úrslitaeinvígi liðanna. 

„Við vorum of stressaðar í leiknum á föstudaginn þegar við gátum klárað þetta á heimavelli. Það var gott að fá annan leik strx einum og hálfum sólarhring eftir. Við vorum staðráðnar í að hefna fyrir tapið í síðasta leik og byrja baráttuna frá fyrstu mínútu. Það tókst og við erum gríðarlega glaðar,“ sagði Anna Úrsúla um spilamennsku Gróttu í leiknum.

„Það voru allir leikmenn liðsins á tánum alla úrslitakeppnina og þjálfararnir voru óragir við að skipta leikmönnum inn þegar hlutirnir voru ekki að ganga upp. Leikmenn komu inná og stóðu sig vel og það voru margir sem lögðu lóð á vogarskálina. Það var liðsheildin sem skilaði þessu. Það er frábært að ljúka þessu tímabili með þessum hætti og það verður fagnað vel og innilega í kvöld,“ sagði Anna Úrsúla, aðspurð um hvað hefði lagt grunninn að Íslandsmeistaratitlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert