„Best í heimi fyrir þjálfara og leikmenn“

Benedikt Gunnar Óskarsson og Óskar Bjarni Óskarsson.
Benedikt Gunnar Óskarsson og Óskar Bjarni Óskarsson. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Undanúrslit í Evrópukeppni er stórt fyrir strákana, okkur þjálfarana, félagið og íslenskan handbolta og íþróttalíf. Það eru allir með okkur í þessu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta.

Valur á fyrir höndum fyrri leik gegn rúmenska liðinu Minaur Baia Mare í undanúrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda annað kvöld.

„Þetta er mikil skemmtun og veisla þannig að vonandi getum við spilað vel og náð góðum leik á sunnudaginn, sem hjálpar okkur í framhaldinu,“ bætti hann við í samtali við mbl.is.

Gott að vera í miklu leikjaálagi

Spurður hvort Valsmönnum hefði þótt betra að byrja á útivelli sagði Óskar Bjarni:

„Já, já. Þegar það er dregið ertu aðeins að velta þessu fyrir þér en svo er það bara búið og verkefnið er svona. Ég held að við ættum ekki að hugsa of mikið um það.

Við þurfum virkilega að spila góðan leik, þá getum við tekið þá. Við þurfum að ná góðri frammistöðu, góðum varnarleik, fá okkar hraðaupphlaup, sýna skynsemi og spila góðan og agaðan sóknarleik.

Ef við gerum það og vinnum tel ég okkur eiga góða möguleika. Við ætlum að byrja á þessum leik, það er bara eitt skref í einu.

Það er gott að vera í miklu leikjaálagi, þá getum við ekkert farið fram úr okkur. Svona er þetta og við tökum því bara.“

Það var ömurlegt

Er erfitt að halda jafnvægi við að spila hér heima og í Evrópubikarnum?

„Þessi keppni ofan í úrslitakeppni er alveg kúnst. Ég verð að viðurkenna það. En á meðan maður setur sig í gírinn er bara leikur á sunnudag og öll vinna, orka og undirbúningur fer í hann.

Svo er það þetta gamla góða, bara eitt skref í einu og ein vörn í einu þegar komið er inn í leikinn. Þú vilt vera í þessari stöðu. Í fyrra duttum við út í átta liða úrslitum keppninnar og það var ömurlegt.

Þú vilt hafa mikið af leikjum á móti góðum liðum. Okkar bíður bara þetta sterka lið núna og svo kemur annað frábært lið á miðvikudaginn.

Þetta er bara best í heimi fyrir þjálfara og leikmenn en auðvitað er þetta kúnst og við þurfum að vera klókir,“ sagði hann.

Getur allt gerst

Spurður hvort hann væri bjartsýnn á að Valur kæmist í úrslitaleik í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan karlalið Vals gerði slíkt hið sama í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980 sagði Óskar Bjarni að lokum:

„Þeir eru góðir og við erum góðir líka. Við þurfum að sjá hvernig við náum að kalla allt fram. Ef við náum okkar leik og erum með gott orkustig og góðan stuðning þá getur allt gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert