Akureyringar jöfnuðu metin

Aron Hólm Kristjánsson sækir að marki Fjölnis.
Aron Hólm Kristjánsson sækir að marki Fjölnis. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Aron Hólm Kristjánsson átti stórleik fyrir Þór þegar liðið hafði betur gegn Fjölni í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í efstu deild karla í handknattleik í Höllinni á Akureyri í kvöld.

Leiknum lauk með fimm marka sigri Þórs, 25:20, en Aron gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk í leiknum. Með sigrinum jöfnuðu Akureyringar metin í 1:1 í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í efstu deild.

Akureyringar voru sterkari aðilinn allan tímann og náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:3.

Staðan í hálfleik var 12:16, Þór í vil, og Akureyringar leiddu með átta mörkum, 19:11, þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þann mun tókst Fjölni ekki að vinna upp.

Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði fjögur mörk fyrir Þór en Elvar Ólafsson og Björgvin Páll Rúnarsson voru markahæstir hjá Fjölni með fimm mörk hvor.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Dalhúsum í Grafarvogi á föstudaginn kemur, 26. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka