Öruggt hjá meisturunum í fyrsta leik

Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að vörn ÍBV í kvöld.
Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að vörn ÍBV í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Vals eru komnir yfir í einvígi sínu gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir sigur í fyrsta leik á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld, 28:22.

Þrjá sigra þarf til að vinna einvígið og fara í úrslit. Þar bíða annað hvort Haukar eða Fram.

Valskonur byrjuðu af gríðarlegum krafti og var staðan 5:1 eftir tíu mínútna leik og skömmu síðar 11:3.

Eyjaliðið fann engar lausnir á sterkri vörn Vals, á meðan Valskonur komust hvað eftir annað í opin færi hinum megin. Hafdís Renötudóttir var að verja vel í markinu og Valsliðið að fá mörg mörk eftir snöggar sóknir.

Eftir því sem leið á hálfleikinn jafnaðist leikurinn, en hálfleikstölur voru samt sem áður 18:11. Liðin skiptust á að skora í upphafi seinni hálfleiks, en svo tók Valsliðið við sér og náði tíu marka forskoti í fyrsta skipti í stöðunni 26:16.

Eyjakonur lögðu ekki árar í bát og með fínum kafla tókst þeim að minnka muninn í fimm mörk, 27:22. Nær komust þær hins vegar ekki og öruggur sigur Vals varð raunin.

Valur 28:22 ÍBV opna loka
60. mín. Marta Wawrzynkowska (ÍBV) varði skot Frá Þóreyju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert