Eitthvað allt annað en handbolti

Kristrún Steindórsdóttir sækir að vörn Hauka í kvöld.
Kristrún Steindórsdóttir sækir að vörn Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lið Fram er komið upp við vegg í viðureign sinni gegn Haukum í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir að liðið tapaði eftir framlengdan leik í kvöld. Einar Jónsson þjálfari liðsins var ekki ánægður með dómgæsluna í kvöld og hafði þetta að segja eftir leikinn:

Hvernig lítur þetta út í þinum huga eftir þennan leik?

„Við erum búin að koma okkur upp við vegg og við þurfum að vinna næsta leik, það er ljóst."

Ertu ánægður með frammistöðu þinna leikmanna í leiknum í kvöld?

„Já ég er búinn að vera ánægður með okkar frammistöðu 90% af tímanum en það er bara erfitt að spila á móti þessu Haukaliði. Þær fá að taka 4-5 skref í næstum því hverri einustu árás.

Ef það er búið að breyta reglunum þá finnst mér eðlilegt að okkur sé tilkynnt það. Því það er alveg nógu erfitt að spila við Hauka þegar þær taka bara þrjú skref en þegar þær taka 4,5 og jafnvel 6 skref þá útheimtir það gríðarlega orku og erfitt að verjast því.

Ég hef ekki séð neinar tilkynningar frá hvorki Dómarasambandinu eða HSÍ og bara ekki handboltahreyfingunni yfir höfuð um breyttar reglur. Það voru 17 klippur úr síðasta leik þar sem það er skref á Haukaliðið. Það var dæmt einu sinni. Sama í kvöld, pottþétt 15-20 sinnum skref á þær í þessum leik og ég held það hafi einu sinni verið dæmt.

Sóldís Rós Ragnarsdóttir
Sóldís Rós Ragnarsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær eru þannig lið að þær græða á þessu með sína fljótu og snöggu leikmenn. Ef við ætlum ekki að halda okkur innan ramma reglna þá er þetta eitthvað allt annað en handbolti.

Að þessu sögðu þá erum við að klúðra þessum leik sjálf. Við förum með dauðafæri, vítaköst og alltaf þegar við getum gengið frá leiknum þá köstum við þessu frá okkur. Síðan þurfum við að æfa okkur betur í fótavinnunni til að geta brugðist við því þegar lið geta tekið 4 og 5 skref á þig.

Voru fleiri vafaatriði sem féllu með Haukum í kvöld?

„Já það voru nokkur atriði en ég vil segja það að Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson eru frábærir dómarar og með þeim allra bestu í vetur en ég var ekki sáttur við þá í kvöld. Síðustu 15 mínútur leiksins þá falla öll vafaatriði með Haukum í leiknum. En það sem fer mest í taugarnar á mér eru öll þessi skref sem Haukarnir komast upp með í kvöld."

Alfa Brá Hagalín
Alfa Brá Hagalín mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað varð Fram að falli í kvöld?

„Við gerum of mikið af tæknifeilum, það er svakalegur munur á markvörslu. Við verðum að fá betri markvörslu og þá siglum við þessum leikjum heim.

Fram hlýtur að ætla að taka að minnsta kosti einn sigur út úr þessum leikjum ekki satt?

„Við ætlum að vinna næstu þrjá leiki, það er ekkert flóknara en það. Ég vill sjá fullt hús í Fram húsinu 1. maí á afmælisdegi Fram. Þessar stelpur hafa staðið sig frábærlega í vetur og eiga skilið að fá alvöru stuðning.

Við getum alveg snúið þessu við. Báðir þessir leikir enda í jafntefli eftir 60 mínútur og ég er alveg sannfærður um að við getum unnið næstu þrjá leiki," sagði Einar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert