Komin með stórt Haukahjarta

Sara Odden neglir að marki Fram í kvöld.
Sara Odden neglir að marki Fram í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar eru einum sigri frá því að tryggja sig í úrslitaeinvígið gegn Val eða ÍBV eftir dramatískan sigur á Fram eftir framlengdan leik í kvöld. Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka var ánægð með niðurstöðu leiksins en sagði þó margt hægt að bæta í leik liðsins.

Ertu ánægð með ykkar leik í kvöld?

„Mér fannst við ekki vera eins þéttar varnarlega eins og í síðasta leik. Það var of langt á milli okkar og við vorum í basli með það nánast allan leikinn. Í framlengingunni þá fær Fram góð færi en Margrét Einarsdóttir var bara frábær í kvöld."

Eru Haukarnir með sterkari taugar í svona leiki en Fram í ljósi þess að ef við tökum samanlagaða markatölu í þessum tveimur framlengingum þá er staðan 8:1 fyrir Haukum?

„Ég veit það nú ekki. Fram er með margar góðar kempur sem hafa oft verið í svona stöðu áður. En auðvitað skiptir það máli að við vorum mikið í að spila framlengda leiki í fyrra og ég finn alveg að það er munur á orkustigi leikmanna þegar ég fer inn í klefa núna í framlengingu í samanburði við fyrra. Stefán kemur líka inn núna með element sem hjálpar til við að róa liðið í svona stöðu og hjálpar mér að koma skilaboðum til liðsins."

Það voru margir leikmenn sem spila góðan leik í dag en mig langar að spyrja út í Söru Odden og þessi rosalegu skot sem koma frá henni fyrir utan. Er þetta allt þaulæft á æfingum?

„Já hún er alveg mögnuð í þessu. En svo veit ég ekki hvort þetta sé svona bara með kvenfólk eða hvað en hún er of dugleg að rífa sig niður ef eitthvað klikkar en það er mitt hlutverk að rífa hana upp því ég veit alveg hvað hún getur og hún hefur sýnt okkur það. Við erum ótrúlega heppnar að hún vilji vera hér hjá okkur og hún er líka komin með stórt Haukahjarta."

Eitthvað sem Haukar þurfa að laga fyrir næsta leik?

„Já alveg helling. Við þurfum að þétta vörnina en Margrét bjargaði okkur í dag. Við erum líka að tapa fullt af boltum og svo þarf að laga tempóið sóknarlega," sagði Díana í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert