Grikkir unnu óvæntan sigur

Niels Versteijnen og félagar í Hollandi náðu sér ekki á …
Niels Versteijnen og félagar í Hollandi náðu sér ekki á strik. AFP/Tobias Schwarz

Grikkland gerði sér lítið fyrir og vann afar sterkan sigur á Hollandi, 31:27, í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2025 í handknattleik karla í Kozani í Grikklandi í dag.

Fyrir fram var Holland talið töluvert sterkari aðilinn enda tekið þátt á stórmótum undanfarinna ára og handknattleikur verið á mikilli uppleið þar í landi eftir að Erlingur Richardsson stýrði liðinu frá 2017 til 2022.

Leikir vinnast þó ekki á pappírum og fara Grikkir með fjögurra marka forystu í síðari leikinn í Hollandi næstkomandi sunnudag.

Grikkir tóku þátt á EM í fyrsta sinn í byrjun þessa árs en bæði lið hafa að vísu einungis tekið þátt á einu heimsmeistaramóti í sögunni; Holland á því síðasta árið 2023 og Grikkland árið 2005.

Rúmenar með naumt forskot

Rúmenía lagði Tékkland að velli, 31:30, í fyrri leik liðanna í Baia Mare í dag.

Því er allt galopið fyrir síðari leikinn í Tékklandi á sunnudag.

Rúmenía tók síðast þátt á heimsmeistaramóti árið 2011 og Tékkland síðast árið 2015.

Sigurvegarar í einvígjunum fara beint á HM 2025 sem fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert