Vildum fara í 50 mörkin

Gísli Þorgeir í leiknum í kvöld.
Gísli Þorgeir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti stórleik fyrir íslenska landsliðið í handbolta er liðið fór illa með það eistneska, 50:25, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á lokamóti HM í byrjun næsta árs. Gísli skoraði átta mörk sjálfur og lagði upp ófá til viðbótar.

„Það var geðveikt að spila þennan leik, fáránlega gaman. Þetta var gaman því við gerðum þetta af fullum krafti. Það hefði verið leiðinlegt að koma í þennan leik af hálfum hug og gera þetta að einhverjum leik.

Við gerðum þetta af fullum krafti frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Að skora 50 mörk gerist ekki oft. Ég er hrikalega stoltur og það má segja að við séum komnir helvíti langt með þetta einvígi,“ sagði Gísli við mbl.is eftir leik.

„Maður er aðeins að kynnast vörninni í byrjun en við vorum með góða tilfinningu og í góðu flæði. Um miðjan fyrri hálfleik vorum við algjörlega með þá,“ bætti hann við.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn var ljóst að íslenska liðið átti möguleika á að skora 50 mörk í leiknum og það varð að markmiði. „Það var klárlega markmiðið okkar í leikhléinu sem þeir tóku. Við vildum fara í 50 mörkin og vinna þetta eins stórt og við gátum til að komast í góða stöðu fyrir næsta leik.“

Gísli stendur í ströngu með Magdeburg í Þýskalandi um þessar mundir, en liðið er á toppi þýsku 1. deildarinnar og komið í undanúrslit í Meistaradeildinni. Álagið er því mikið og eflaust tilvalið að hvíla Gísla aðeins í seinni leiknum, í einvígi sem er unnið.

„Ég vildi gera þetta verkefni af fullum krafti og svo verðum við að sjá til hvað við gerum í seinni leiknum. Ef ég er inn á, þá er ég 100 prósent,“ sagði Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert