Þetta er rétt að byrja

Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar marki í dag.
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar marki í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, einn af tveimur þjálfurum Hauka, í samtali við mbl.is eftir tap sinna kvenna fyrir Íslandsmeisturum Vals, 28:27, í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta í dag. 

Valur er þar með með forystuna, 1:0, en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Næsti leikur liðanna er á Ásvöllum á sunnudaginn. 

„Svekkjandi, þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Díana spurð út í fyrstu viðbrögð eftir leik. 

Fóru ekki eftir skipulagi

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði tíu mörk í leiknum en fékk tveggja mínútuna brottvísun í stöðunni 24:21 fyrir Haukum. Eftir það fékk Valsliðið mikinn meðbyr og sigldi sigrinum heim. 

„Við fáum á okkur tvær mínútur, sem var örugglega réttur dómur. Þar erum við ekki nógu klókar og þar verður einhver að taka af skarið og spila betur út úr því.“

Díana Guðjónsdóttir.
Díana Guðjónsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eitthvað hugmyndaleysi í sóknarleiknum þá?

„Þær fóru ekki eftir skipulagi, það var alveg klárt hvað átti að gera en það var ekki farið eftir því.“

Díana er spennt fyrir framhaldinu og segir þetta vera rétt að byrja. 

Hvað þurfið þið að gera til að jafna einvígið á sunnudaginn?

„Spila betri vörn og nýta færi,“ bætti Díana við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert