Að duga eða drepast fyrir Ísland í dag

Ísland fagnar marki gegn Belgíu á föstudaginn.
Ísland fagnar marki gegn Belgíu á föstudaginn. Ljósmynd/Sorin Pana

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí spilar í dag sinn síðasta leik í A-riðli 2. deildar HM sem fram fer í Galati í Rúmeníu. Staðan er einföld; sigur tryggir liðinu bronsverðlaun en tap setur liðið niður í 5. sætið þriðja mótið í röð.

Ísland mætir Serbíu klukkan 13.30 að íslenskum tíma. Ef illa fer gætu Serbar fallið úr deildinni með tapi og því er ljóst að allt verður undir hjá þeim. Áður en lengra er haldið skulum við skoða stöðuna fyrir lokaumferðina í dag:

Rúmenía 9 stig, Ástralía 8, Belgía 6, Ísland 6, Serbía 5, Spánn 2. – Ástralía og Belgía mætast í fyrsta leiknum og síðasti leikurinn er viðureign Rúmeníu og Spánar.

Rúmenía vann Belgíu, svo það þýðir að ef Belgía vinnur Ástralíu í fyrsta leiknum er Rúmenía öruggt með gullverðlaun fyrir leikinn við Spán. Vinni Spánn þann leik hins vegar og Ísland vinnur Serbíu hafnar Serbía í neðsta sætinu og fellur. Það er því að miklu að keppa í dag.

Í höndum strákanna að ná í verðlaun

Ef horft er á úrslitin á mótinu til þessa gætir nokkurrar furðu. Belgía vann Ísland 9:3 á föstudag, en tapaði einmitt fyrir Serbíu 9:2. Það var raunar annar leikurinn sem Belgía tapaði með því að fá 9 mörk á sig, en Rúmenía vann viðureign þeirra 9:1. Hins vegar vann Ísland 2:0 sigur á Rúmeníu.

Landsliðsþjálfarinn Magnus Blårand lagði mikla áherslu á það á liðsfundi íslenska liðsins í gærkvöldi að Serbía gæti að öllum líkindum verið að berjast fyrir lífi sínu. Þrátt fyrir að staða Íslands væri örugg hefði liðið komið hingað til þess að ná í verðlaun og það væri í höndum strákanna að ná því.

Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 13.30 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu frá Galati hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert