„Ungu strákarnir voru frábærir“

Bergur Árni Einarsson, Jónas Breki Magnússon og Ingvar Þór Jónsson …
Bergur Árni Einarsson, Jónas Breki Magnússon og Ingvar Þór Jónsson voru aldursforsetar Íslands á HM í Rúmeníu. mbl.is/Andri Yrkill

„Ég veit ekki hvort það var andlega hliðin eða líkamlega hliðin sem klikkaði. Kannski bæði,“ sagði Ingvar Þór Jónsson, landsliðsfyrirliði í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir 6:0-tap liðsins fyrir Serbíu í lokaleik sínum í A-riðli 2. deildar HM sem lauk í Galati í Rúmeníu í kvöld. Tapið kom í veg fyrir að Ísland ynni til bronsverðlauna.

„Við spiluðum kannski á of fáum varnarmönnum allt mótið. Leikurinn við Rúmena tók virkilega á, bæði líkamlega og andlega. Kannski er það reynsluleysið sem er að koma í ljós. En mér finnst erfitt að benda á eitthvert eitt atriði. Ég gæti sagt ef og ef í allan dag,“ sagði Ingvar þegar hann var beðinn um að gefa upp mótið.

Íslenska liðið hafnaði í 5. sæti eftir sigur á Spánverjum og Rúmenum, en þetta var í fyrsta sinn sem íslenska liðið vinnur Rúmeníu. Hann segir þó mikilvægt að horfa á björtu hliðarnar og segir framtíðarleikmenn hafa stigið upp á þessu móti.

Vil ekki meina að ég hafi spilað minn síðasta landsleik

„Við spilum fimm leiki saman á ári, landsliðið fær ekki fleiri leiki en það. En ég held að framtíðin sé björt. Ungu strákarnir voru frábærir og í hvert sinn sem þeir fengu tækifæri á ísnum þá stóðu þeir sig frábærlega. Það fundu það allir og þjálfarinn gaf þeim alltaf meiri tíma eftir því sem leið á þar sem þeir stóðu sig svo vel. Svona fór þetta í ár, en við verðum að taka það jákvæða með frá þessu móti og það var alveg hreint magnað að vinna Rúmeníu,“ sagði Ingvar.

Ingvar er einn reynslumesti landsliðsmaður Íslands en annar slíkur, Jónas Breki Magnússon, var að segja skilið við landsliðið eftir langan feril í dag. Hvað um framhaldið hjá Ingvari?

„Ég stefni á fleiri ár, en ég tek eitt í einu. Ég þarf að komast í liðið og líkaminn þarf að vera í lagi og allar aðstæður og annað. Þó að ég hafi frábæran stuðning fjölskyldunnar, starfsfélaga og allt svoleiðis þá þarf allt að ganga upp. Ég vil meina að ég hafi ekki spilað minn síðasta leik, en maður veit samt aldrei,“ sagði Ingvar Þór Jónsson í samtali við mbl.is í Galati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert