Spiluðu betur og betur

Hildur Björg Kjartansdóttir sækir að körfu Lúxemborgar í leiknum í …
Hildur Björg Kjartansdóttir sækir að körfu Lúxemborgar í leiknum í San Marínó í gær en Julija Vujakovic er til varnar. Ljósmynd/KKÍ

Kvennalandsliðið í körfuknattleik sótti í sig veðrið á Smáþjóðaleikunum eftir tap í fyrsta leiknum gegn Möltu og landaði silfurverðlaunum. Ísland vann í gær sannfærandi sigur á öflugu liði Lúxemborgar 59:44 og er það fyrsti sigur íslensku kvennanna á Lúx síðan 2009. Lið Lúxemborgar kom hingað með væntingar um að vinna körfuboltakeppnina en þarf að gera sér 3. sætið að góðu eftir töp gegn Íslandi og Möltu.

Pirringurinn leyndi sér ekki hjá leikmönnum Lúxemborgar þegar liðið var lent meira en tíu stigum undir gegn Íslandi í fyrri hálfleik, en að honum loknum var Ísland yfir 31:19. Dómaratríóið leyfði nokkra hörku en hún fór aldrei fram úr hófi. Eins og bæði úrslitin og hálfleikstölurnar gefa til kynna spiluðu okkar konur hörkuvörn og munu hafa gert lengst af á leikunum. Skotnýtingin brást hins vegar í fyrsta leiknum gegn Möltu en eftir það hefur verið stígandi í leik íslenska liðsins og liðið lauk leikunum á góðum nótum.

„Ég er mjög ánægð með þennan sigur. Við vorum allar tilbúnar í verkefnið og gáfum allt í þennan leik. Andinn á bekknum var geggjaður og baráttan var í lagi,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir þegar Morgunblaðið tók hana tali að leiknum loknum. Sara skoraði 6 stig og tók 6 fráköst en hún skoraði 19 stig gegn Kýpur daginn áður. Sara segir landsliðskonurnar hafa náð að laga ýmislegt sem miður fór í fyrsta leiknum. „Við vorum ekki orðnar nógu samæfðar í fyrsta leiknum og þá sáum við hvað við þurftum að laga. Við vorum því betur undirbúnar í næsta leik. Við höfum spilað betur og betur saman með hverjum leiknum,“ sagði Sara, sem er hálfnuð með nám sitt í Bandaríkjunum, en af þeim sökum gat hún ekki leikið með landsliðinu í síðustu undankeppni EM.

Sjá greinina í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert