Valur í undanúrslit eftir framlengda spennu

Nemanja Knezevic og Kristinn Pálsson í þriðja leik liðanna í …
Nemanja Knezevic og Kristinn Pálsson í þriðja leik liðanna í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur er kominn áfram í undanúrslit Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir æsispennandi viðureign gegn Hetti í kvöld.

Allt leit út fyrir að Valsarar væru að hlaupa burt með sigurinn snemma í leiknum allt þar til heimamenn í Hetti hófu áhlaup á gestina og unnu upp 21 stiga forskot Valsmanna. Leikurinn fór í framlengingu þar sem gestirnir í Val unnu að lokum 103:97. 

Valsmenn hófu leikinn af krafti

Leikurinn fór fram á heimavelli Hattar á Egilsstöðum en Valsmenn gátu með sigri komist í 3:1 í viðureigninni og með því tryggðu Valsmenn sér sæti í undanúrslitum. Valsmenn hófu leikinn af miklum krafti og fór Justas mikinn í liði Valsara en hann skoraði fyrstu níu stig liðsins úr þremur skotum. 

Erfiðleikar hjá heimamönnum

Valsmenn héldu áfram að ganga á lið Hattar sem áttu í erfiðleikum með að koma boltanum í körfuna. Í lok fyrsta leikhluta voru Valsarar komnir með 13 stiga forskot, 15:28. Sömu sögu var að segja í öðrum leikhluta þar sem Valsarar voru ívið betri og í hálfleik var staðan orðin 33:44 og Valsarar fóru í hálfleikinn með 11 stiga forskot. 

Unnu upp forskot Valsmanna

Í seinni hálfleiknum hófu gestirnir leik af miklum krafti og komust mest í 21 stiga forskot en undir lok þriðja leikhluta kviknaði loksins á leikmönnum Hattar og hófst ótrúleg endurkoma þar sem heimamenn söxuðu á forskot gestanna á skömmum tíma. Í fjórða leikhluta náðu Hattarmenn að jafna metin í 85:85 og að lokum fór leikurinn í framlengingu, 87:87 voru lokatölur í venjulegum leiktíma. 

Valsmenn hófu framlenginguna af krafti og komust í sex stiga forskot. Viðar tók leikhlé og teiknaði upp næstu sóknir heimamanna og náði Karlovic að minnka forskotið niður í eitt stig. Að lokum fór Valur með sex stiga sigur úr viðureigninni og heldur því áfram í undanúrslitin en Höttur er úr leik eftir drengilega keppni í dag.

Justas Tamulis, leikmaður Vals fór mikinn í leiknum og endaði með 34 stig, þrjú fráköst og tvær stoðsendingar, Kristófer Acox og Taiwo Badmus enduðu báðir með 17 stig. Í liði Hattar var Deontaye Buskey atkvæðamestur með 29 stig og átta fráköst en Matej Karlovic fylgdi þar á eftir með 20 stig og þrjú fráköst.

Höttur 97:103 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka