Sannfærandi Keflvíkingar auðveldlega í undanúrslit

Eysteinn Bjarni Ævarsson sækir að Keflvíkingum á Álftanesi í kvöld.
Eysteinn Bjarni Ævarsson sækir að Keflvíkingum á Álftanesi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með því að vinna gífurlega öruggan sigur á Álftanesi, 114:85, í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum á Álftanesi.

Bikarmeistarar Keflavíkur unnu þar með einvígið 3:1 og eru þriðja liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum á eftir Grindavík og deildarmeisturum Vals.

Í fyrri hálfleik átti eitt sterkasta varnarlið landsins engin svör við stórskotaliði besta sóknarliðs landsins. Keflavík skoraði úr 15 af 16 tveggja stiga skotum sínum, sem er 93 prósenta nýting, og úr sex af tólf þriggja stiga skotum sínum.

Á meðan gekk Álftnesingum illa í sóknarleik sínum þar sem fá þriggja stiga skot fóru ofan í körfuna, auk þess sem heimamenn áttu fá svör í vörninni.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum þar sem Keflvíkingar léku á als oddi á meðan Álftnesingar voru ráðvilltir í öllum sínum aðgerðum.

Álftanes átti engin svör

Keflavík byrjaði af miklum krafti og komst snemma í 8:2. Álftanes lagaði stöðuna í 11:7 en þá fór í hönd frábær kafli gestanna sem voru komnir 12 stigum yfir, 21:9, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta.

Keflvíkingar bættu einungis í og voru með 14 stiga forskot, 28:14, að loknum fyrsta leikhluta.

Gestirnir voru áfram með undirtökin í öðrum leikhluta og komust mest 23 stigum yfir, og það í þrígang. Eftir leikhlé tókst Álftnesingum að laga stöðuna aðeins og minnka muninn niður í 16 stig.

Keflvíkingar áttu hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar Igor Maric setti niður þriggja stiga körfu og munurinn var því 19 stig, 58:39, í hálfleik.

Auðvelt í síðari hálfleik

Í síðari hálfleik hélt Keflavík sýningunni áfram og var komið 32 stigum yfir, 89:57, þegar ein og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta. Staðan var 91:60 að honum loknum.

Fjórði leikhluti reyndist formsatriði fyrir Keflavík. Mest náði liðið 33 stiga forskoti, 102:69, þegar skammt var eftir og vann að lokum afskaplega þægilegan 29 stiga sigur.

Jaka Brodnik var stigahæstur í leiknum með 21 stig fyrir Keflavík. Remy Martin bætti við 18 stigum og 12 stoðsendingum.

Sigurður Pétursson og Marek Dolezaj skoruðu 16 stig hvor. Sigurður tók auk þess fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Igor Maric var þá með 15 stig og fimm fráköst.

Douglas Wilson var stigahæstur hjá Álftanesi með 16 stig og sex fráköst.

Álftanes 85:114 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert