Eyþóra áttunda og Irina í 40. sæti

Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sýnir listir sínar á jafnvægisslánni á Ólympíuleikunum …
Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sýnir listir sínar á jafnvægisslánni á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Irina Sazonova hafnaði í 40. sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum í Ríó, þar sem hún varð fyrsta fimleikakonan til að keppa á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd.

Irina keppti í riðli fjögur og það var ekki ljóst fyrr en keppni í fimmta og síðasta riðlinum lauk í nótt hver heildarniðurstaða undankeppninnar varð.

Irina fékk 53,2 stig í einkunn og varð fertugasta eins og fyrr segir. Til að komast í 24 manna úrslitin í fjölþraut hefði hún þurft að fá yfir 54,598 stig.

Eyþóra Elísabet Þórsdóttir, sem á íslenska foreldra en er fædd og uppalin í Hollandi, hafnaði í 8. sæti í fjölþrautinni, þrátt fyrir mistök sín í gólfæfingum. Hún keppir því í úrslitunum á fimmtudagskvöld kl. 19. Eyþóra fékk 57,566 í einkunn. Efst í forkeppninni, og raunar langefst, varð Simone Biles frá Bandaríkjunum sem fékk 62,366 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert