Allir að gefa henni illt auga

Julia Efimova felldi tár eftir að hafa misst af ólympíumeistaratitlinum …
Julia Efimova felldi tár eftir að hafa misst af ólympíumeistaratitlinum í nótt en hún fékk silfurverðlaunin. AFP

„Maður tók alveg eftir því að það voru allir að gefa henni illt auga inni í klefa og forðast það að tala við hana,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir um keppinaut sinn í 100 metra bringusundinu, Juliu Efimovu frá Rússlandi, eftir úrslitasundið á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Efimova fékk að taka þátt á Ólympíuleikunum þrátt fyrir sína lyfjamisnotkunarsögu en henni tókst ekki að bera sigur úr býtum, því hin 19 ára gamla Lilly King hafði betur. Hrafnhildur endaði sjálf í 6. sæti.

Sjá einnig:
Hrafnhildur náði 6. sæti
Ég vil ekki hætta núna

„Ég er ánægð með að sú bandaríska skyldi vinna hana. Þó að hún [Efimova] hafi komist á verðlaunapallinn þá varð hún alla vega ekki ólympíumeistari. En þessi kínverska [innsk: Shi Jinglin, sem varð í 4. sæti] hugsar örugglega með sér; Ég hefði komist á pallinn ef hún hefði ekki verið þarna. Og ég hefði sjálf getað hoppað upp um eitt sæti, en það er ekkert sem við getum gert í þessu. Ég er bara glöð að það skyldi ein vera á undan henni sem sýndi að þó að einhver sé að dópa þá geta stífar æfingar og metnaður samt skilað manni sigri,“ sagði Hrafnhildur. Hún sagði það ekki hafa truflað sig hvernig áhorfendur tóku á móti Efimovu, en þeir létu óánægju sína með þátttöku hennar glögglega í ljós:

„Maður heyrði auðvitað hvað það var púað á hana í stúkunni en maður á ekki að láta það á sig fá og ég held að ég hafi ekki gert það.“

Sjá einnig: Rosalega leiðinlegt mál

Hinar bandarísku Lilly King og Katie Meili fagna verðlaunum sínum; …
Hinar bandarísku Lilly King og Katie Meili fagna verðlaunum sínum; gulli og bronsi, en Julia Efimova er ekki eins sátt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert