Ég vil ekki hætta núna

Hrafnhildur Lúthersdóttir er ekki hætt á Ólympíuleikunum. Hún syndir í …
Hrafnhildur Lúthersdóttir er ekki hætt á Ólympíuleikunum. Hún syndir í undanrásum 200 metra bringusunds á miðvikudag. mbl.is/Eggert

„Ég held að ég hefði alveg getað synt þetta betur og ég var alls ekki á þeim tíma sem ég vildi vera á, en ég hækkaði mig upp um sæti frá því í undanúrslitunum, sem er alltaf gott,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir eftir að hafa náð 6. sæti í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó.

Þetta er næstbesti árangur sem Íslendingur hefur náð í sundi á Ólympíuleikum en Örn Arnarson náði 4. sæti í 200 metra baksundi í Sydney árið 2000.

Sjá einnig: Hrafnhildur náði 6. sæti

Hrafnhildur náði 7. besta tímanum í undanúrslitum en náði sjötta sætinu í nótt, jafnvel þó að hún hefði synt á 1:07,18 mínútum sem er 73/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti hennar.

„Ég var á undan ólympíumeistara og heimsmethafa [innsk: Rutu Meilutyte], sem er mjög gott. Ég hefði líka verið sátt ef ég hefði endað í 8. sæti, það er frábært að ná því á Ólympíuleikum og 6. sætið er bara enn þá betra,“ sagði Hrafnhildur við mbl.is eftir sundið. Hún synti á 1. braut, við hlið hinnar bandarísku Katie Meili sem fékk brons, og gerði sitt besta til að halda í við hana:

Vonandi eins vel eða betur í 200 metra sundinu

„Þjálfararnir gáfu mér þær upplýsingar að halda í við þær eins vel og ég gæti, en það sem ég held að ég hafi gert vitlaust var að tökin mín voru of hröð. Ég hefði getað farið þetta léttar, á færri tökum, en reyndi held ég allt of mikið á mig fyrstu 50 metrana. Ég held að ég hafi ekki náð að stilla hraðann rétt að þessu sinni, né í undanrásunum og undanúrslitunum, en nú er ég bara spennt fyrir 200 metra sundinu. Ég hef alltaf verið með þolið og höndlað það vel,“ sagði Hrafnhildur, en undanrásir 200 metra bringusundsins eru á miðvikudag.

„Ég vona að ég geti gert jafnvel þar, ef ekki betur. 200 metra sundið hefur yfirleitt verið betra sund hjá mér, miðað við stig og það sem þjálfarar hafa alltaf sagt mér. Ég hef alltaf náð að halda vel dampi síðustu 50 metrana, þegar aðrar fara kannski aðeins að „deyja“. Ég er kannski ekki með hraðann eins og ég vildi en ég er enn þá með þolið. Ég fæ núna daginn til að hvíla mig og svo byrjar þetta aftur,“ sagði Hrafnhildur, vongóð um að upplifa aftur úrslitasund áður en vikan er úti:

„Ég vil ekki hætta núna,“ bætti hún við og brosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert