Hrafnhildur náði 6. sæti

Hrafnhildur Lúthersdóttir er aðeins annar Íslendingurinn í sögunni til að …
Hrafnhildur Lúthersdóttir er aðeins annar Íslendingurinn í sögunni til að keppa í úrslitum sunds á Ólympíuleikum. mbl.is/Eggert

Hrafnhildur Lúthersdóttir synti í úrslitum 100 metra bringusunds á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt. Hún hafnaði í 6. sæti.

Hrafnhildur átti sjöunda besta tímann í undanúrslitunum síðustu nótt, en hún synti þá á 1:06,71 mínútu. Íslandsmet Hrafnhildar í greininni er 1:06,45.

Í nótt synti hún á 1:07,18 mínútu og varð eins og fyrr segir sjötta. Katie Meili frá Bandaríkjunum synti við hlið Hrafnhildar og varð í 3. sæti á 1:05,69. Landa hennar, Lilly King, varð ólympíumeistari á 1:04,93 mínútu sem er nýtt ólympíumet. Julia Efimova frá Rússlandi fékk silfur en hún synti á 1:05,50.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

02.05 - Þá segjum við þetta gott í þessari lýsingu. Ég ætla að finna Hrafnhildi og viðtal við hana birtist vonandi hér á vefnum innan skamms. Næstbesti árangur Íslendings í sundi á Ólympíuleikum er sem sagt hér með 6. sæti.

02.01 - Hrafnhildur hafnar í 6. sæti! Hún synti á 1:07,18 en Lilly King vann sundið á nýju ólympíumeti, eða 1:04,93 mínútu. Efimova varð önnur á 1:05,50.

02.00 - Þær eru komnar af stað!

01.59 - Áhorfendur baula hressilega þegar Julia Efimova er kynnt. Það yrði nú eitthvað ef hún, með sína lyfjasögu, yrði Ólympíumeistari hér í kvöld.

01.57 - Hrafnhildur er komin inn að bakkanum og farin að gera sig endanlega klára. Þulurinn verður alltaf betri og betri í að bera fram nafnið hennar.

01.56 - Hrafnhildur syndir á 1. braut við hlið hinnar bandarísku Katie Meili.

01.55 - Sun Yang gengur enn hérna um og leyfir ljósmyndurum að mynda sig með gullverðlaunin. Jæja, nú er hann loksins að ganga út og þá förum við að sjá Hrafnhildi og hina keppendurna í 100 metra bringusundinu!

01.49 - Þá er „lyfjasvindlarinn“ Sun Yang búinn að fá gullið sitt og við hlustum á kínverska þjóðsönginn.

01.47 - Við þurfum aðeins að bíða á meðan að strákarnir í 200 metra skriðsundinu fá verðlaunapeningana sína um hálsinn.

01.43 - Foreldrar Hrafnhildar eru að sjálfsögðu í stúkunni eins og í gærkvöld, og ég veit af fleiri Íslendingum sem fylgjast hér spenntir með gangi mála í höllinni.

01.41 - Ryan Murphy frá Bandaríkjunum var að vinna 100 metra baksund karla eftir hnífjafna keppni, á 51,97 sekúndum sem er aðeins 3/100 úr sekúndu frá heimsmetinu og jafnframt ólympíumet. Jæja, þá er Hrafnhildur næst!

01.32 - Járnfrúin frá Ungverjalandi bætir við gulli! Katinka Hosszú var að vinna 100 metra baksundið á 58,45 sekúndum, 30/100 úr sekúndu á undan Kathleen Baker frá Bandaríkjunum. Mie Nielsen, sem Eyleifur Jóhannesson þjálfar, varð í 5. sæti. Hosszú var aðeins á eftir Baker en fór frábærlega í gegnum snúninginn eftir 50 metra og komst fram úr. Nú er rúmt korter eða svo í að Hrafnhildur syndi.

01.30 - Gríðarleg stemning hérna í höllinni þegar úrslitin réðust í 200 metra skriðsundi karla. Chad le Clos fór fáránlega hratt af stað og var lengi með forystuna en Sun Yang frá Kína tók hann í lokin og varð ólympíumeistari á 1:44,65 mínútu, 55/100 úr sekúndu á undan þeim suður-afríska.

01.20 - Síðustu tólf mánuðir á ferli Hrafnhildar hafa verið ævintýri líkastir. Þetta byrjaði allt saman á því að hún náði 6. sæti í 100 m bringusundi og 7. sæti í 50 m bringusundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug fyrir ári síðan. Það var besti árangur íslenskrar sundkonu frá upphafi. Á EM í 50 metra laug í maí fékk hún svo tvenn silfurverðlaun auk bronsverðlauna í 200 metra bringusundinu. Það eru einu verðlaun íslenskrar sundkonu á stórmóti í 50 metra laug, en Eygló Ósk Gústafsdóttir fékk tvenn bronsverðlaun á EM í 25 metra laug í desember. Nú er Hrafnhildur svo mætt í úrslit á Ólympíuleikum.

01.10 - Dagskráin er hafin hér á þessu úrslitakvöldi og bekkurinn orðinn þéttskipaður, jafnt hér í fjölmiðlastúkunni sem og annars staðar. Undanúrslit í 200 m skriðsundi kvenna eru komin í gang. Því næst eru úrslit í 200 m skriðsundi karla, 100 m baksundi kvenna (Eygló Ósk Gústafsdóttir komst í undanúrslit í þeirri grein) og 100 m baksundi karla, áður en Hrafnhildur og keppinautar hennar taka við.

01.00 - King og Efimova voru þær einu sem syntu undir 1:06 í undanúrslitunum. Ruta Meilutyte frá Litháen, hinn 19 ára ríkjandi Ólympíumeistari og heimsmethafi (1:04,35), er hins vegar til alls vís. Jinglin Shi frá Kína átti þó þriðja besta tímann í undanúrslitum (1:06,31). Katie Meili frá Bandaríkjunum, Alia Atkinson frá Jamaíku og Rachel Nicol frá Kanada eru líka í úrslitunum.

01.00 - Við skulum aðeins skoða samkeppnina sem Hrafnhildur fær: Lilly King frá Bandaríkjunum átti besta tímann í undanúrslitum (1:05,70) en Julia Efimova frá Rússlandi var nánast jöfn henni. Efimova varð heimsmeistari í fyrra, nokkrum mánuðum eftir að hafa setið af sér bann vegna steranotkunar, og er ekki vinsæl hérna í höllinni.

00.50 – Örn Arnarson er eini Íslendingurinn sem synt hefur úrslitasund á Ólympíuleikum. Það gerði hann í Sydney árið 2000, í 200 metra baksundi, og var afar nálægt því að vinna til verðlauna en hann endaði í 4. sæti.

00.50 – Gott kvöld kæru lesendur og verið velkomnir í beina textalýsingu úr ólympíusundhöllinni í Ríó, þar sem Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í úrslitum í sundi, fyrst íslenskra kvenna. Hrafnhildur hefur þegar náð stórum áfanga í íþróttasögu Íslendinga, og nú er að sjá hvert endanlegt sæti hennar verður. Eins og Hrafnhildur hefur margoft sagt sjálf, þá getur allt gerst ef maður fær braut í úrslitum. Ég minni fólk á að ýta á F5 til að endurhlaða síðuna, og sjá nýjustu færslu hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert