Samdráttur í 2,5 ár

Samdráttartímabilið er lengra hér en í öðrum iðnríkjum
Samdráttartímabilið er lengra hér en í öðrum iðnríkjum Reuters

Efnahagsbatanum seinkar um einn ársfjórðung ef marka má nýja útgáfu Seðlabanka Íslands á Peningamálum. Væntir Seðlabankinn þess að efnahagsbatinn frestist til þriðja ársfjórðungs og samkvæmt því mun efnahagssamdrátturinn hér á landi vara í tíu ársfjórðunga, 2,5 ár sem er lengra en í öðrum iðnríkjum.

Gengi krónunnar hefur styrkst frá útgáfu Peningamála í lok janúar. Á sama tíma hafa vextir Seðlabankans lækkað um eina prósentu. Skammtímaraunvextir hafa einnig lækkað en áhættuleiðréttur vaxtamunur við útlönd hefur aukist lítillega og hefur, ásamt gjaldeyrishöftum, stutt við gengi krónunnar, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Alþjóðlegur efnahagsbati heldur áfram með svipuðum hætti og spáð var í janúar, þótt alþjóðaviðskipti hafi reynst kröftugri. Þróttur innlends efnahagslífs hefur einnig reynst nokkru meiri en spáð var í janúar. Samdráttur síðasta árs var minni en áður hafði verið reiknað með og vísbendingar eru um að einkaneysla verði sterkari út spátímann. Fjárfesting verður hins vegar veikari á þessu ári vegna frekari seinkunar stóriðjufjárfestingar og meiri samdráttar annarrar atvinnuvegafjárfestingar.

Efnahagsbata seinkar því um einn ársfjórðung, til þriðja ársfjórðungs þessa árs. Samkvæmt því mun efnahagssamdrátturinn hér á landi vara í tíu ársfjórðunga sem er lengra en í öðrum iðnríkjum. Þótt efnahagsbata seinki frá því sem spáð var í janúar, veldur kröftugri einkaneysla því að landsframleiðsla dregst minna saman á þessu ári en þá var spáð.

„Jafnframt eru horfur á hægum vexti á næstu tveimur árum. Sveigjanleiki á vinnumarkaði hefur verið töluvert meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þannig dróst atvinna meira saman á síðasta ári og launakostnaður jókst mun minna en reiknað var með í janúar.

Sveigjanleikinn hefur líklega átt ríkan þátt í að vega á móti meiri verðbólguþrýstingi sakir gengislækkunar og komið í veg fyrir að atvinnuleysi ykist meira en raun ber vitni.

Útlit er fyrir að gengi krónunnar verði heldur sterkara á spátímanum en spáð var í janúar. Tiltölulega stöðugt gengi og vannýtt framleiðslugeta munu stuðla að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Spáð er að undirliggjandi verðbólga verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans snemma á næsta ári en að mæld verðbólga verði í samræmi við markmiðið þegar líða tekur á næsta ár. Sem endranær ríkir mikil óvissa um efnahagshorfur. Þó hefur dregið úr óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með samþykki annarrar endurskoðunar áætlunarinnar," segir í Peningamálum.

Bandaríkin komu einna best út úr kreppunni

Af helstu iðnríkjum virðast Bandaríkin koma einna best út úr kreppunni, en þar tók landsframleiðsla að vaxa á ný á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, eftir samdráttarskeið sem stóð yfir í eitt ár. Á fjórða fjórðungi var landsframleiðslan þar einungis um 2% undir því sem hún var mest fyrir kreppuna, á öðrum ársfjórðungi 2008.

Samdráttarskeiðinu á evrusvæðinu lauk einnig á þriðja ársfjórðungi 2009, en það hófst einum fjórðungi fyrr. Framleiðslutapið varð einnig meira, eða tæplega 5%. Batinn í Bretlandi hófst hins vegar ekki fyrr en á fjórða fjórðungi eftir sex fjórðunga samdráttarskeið og var landsframleiðslan um 6% undir því sem hún var hæst fyrir kreppuna.

Írland, Lettland og Ísland fóru verr út úr kreppunni

„Mörg önnur smærri Evrópulönd fóru mun verr út úr kreppunni, sérstaklega lönd þar sem varð kerfislæg bankakreppa, t.d. á Írlandi, í Lettlandi og á Íslandi.

Batinn á Írlandi hófst reyndar tiltölulega snemma, eða á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs en miðað við síðustu tölur er landsframleiðslan enn um 10% lægri en hún var mest fyrir kreppuna. Samdráttarskeiðin í Lettlandi og á Íslandi hafa varað töluvert lengur og miðað við nýjustu spár er talið að landsframleiðslan taki að aukast á ný á fyrsta ársfjórðungi þessa árs í Lettlandi, en ekki fyrr en á þriðja fjórðungi á Íslandi, eins og áður hefur komið fram.

Samdráttarskeiðin hafa þá staðið í átta ársfjórðunga í Lettlandi en tíu ársfjórðunga á Íslandi og landsframleiðslan dregist saman um tæplega 10% á Íslandi og hátt í 26% í Lettlandi frá því sem hún varð hæst fyrir kreppuna," segir í Peningamálum.

Efnahagsbatinn getur orðið hægari

Grunnspáin sem hér er byggt á gerir ráð fyrir nokkuð traustum bata í alþjóðlegum efnahagsmálum, í takt við alþjóðlegar efnahagsspár. Efnahagsbatinn gæti hins vegar orðið hægari og jafnvel orðið bakslag.

„Batinn fram til þessa hefur að stórum hluta verið drifinn áfram af viðamiklum stuðningsaðgerðum stjórnvalda á sviði peninga- og ríkisfjármála. Líklegt er að þessar aðgerðir líði undir lok á næstunni, sérstaklega þar sem áframhald þeirra getur skapað hættu á eignabólum, verðbólgu og ósjálfbærri skuldsetningu hins opinbera til lengri tíma litið," segir í Peningamálum.

Mikið skuldsett heimili og fyrirtæki í mörgum helstu iðnríkjum gætu því kippt að sér höndum sem teflt gæti endurbatanum í tvísýnu. Gerist þetta gæti þróun viðskiptakjara og útflutnings Íslands orðið lakari og gengi krónunnar lægra en í grunnspánni, vegna óhagstæðari utanríkisviðskipta, minni vilja til áhættutöku og takmarkaðri aðgangs að alþjóðlegu fjármagni sem líklega fylgdi slíkri framvindu.Efnahagsbatinn hér á landi yrði því hægari en felst í grunnspánni.

„Grunnspáin gerir ráð fyrir nokkurri seinkun á framkvæmdum við álver í Helguvík og tengdum orkuframkvæmdum vegna erfiðleika við fjármögnun í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar frá framkvæmdaraðilum. Þar sem önnur endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur farið fram er hins vegar reiknað með að aðgengi að alþjóðlegu fjármagni fáist fljótlega á ný og að ekki verði frekari seinkun á þessum framkvæmdum.

Ekki er hins vegar víst að svo verði. T.d. gæti aftur komið bakslag í efnahagsáætlunina gangi þriðja endurskoðun hennar í sumar ekki eftir. Einnig gætu aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum versnað á ný. Því gæti viðsnúningur og bati fjárfestingar tafist frá því sem grunnspáin gerir ráð fyrir og efnahagsbatanum seinkað.

Grunnspáin gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti útflutnings á þessu ári, þótt ársvöxturinn verði lítill vegna samdráttar í útflutningi sjávarafurða á þessu ári og óhagstæðra grunnáhrifa sem rekja má til mikils tímabundins útflutnings á flugvélum, skipum og bílum í fyrra. Ferðamannaiðnaðurinn og útflutningur annarrar vöru en iðnaðarvöru og sjávarafurða braggast hins vegar ágætlega, enda samkeppnisskilyrði óvenju hagstæð í ljósi lágs raungengis," segir í Peningamálum.

Eldgos hafa áhrif á efnahaginn

Gosið í Fimmvörðuhálsi virtist líklegt til að auka ferðamannastrauminn en gosið í Eyjafjallajökli gæti snúið dæminu við og valdið mikilli fækkun ferðmanna meðan á því stendur. Þegar er tekið að bera á afpöntunum á ferðum til landsins og almennar flugsamgöngur hafa raskast verulega um nær alla Evrópu, sem getur gert flutning útflutningsafurða á erlenda markaði erfiðari en ella. Verði þessi áhrif langvinn gæti verulegur samdráttur í tekjum ferðaþjónustunnar dregið kraft úr efnahagsbatanum og veikt gengi krónunnar miðað við það sem grunnspáin gerir ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK