Afskrifuðu 3,8 milljarða af erlendum lánum

Byr er einn þeirra sparisjóða sem hafa horfið á síðustu …
Byr er einn þeirra sparisjóða sem hafa horfið á síðustu árum, en hann sameinaðist Íslandsbanka. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Sparisjóðirnir þurfa að afskrifa háar upphæðir vegna skuldaaðlögunar, 110% leiðar og gengislána. Afskriftir bara vegna gengislána nema 3,8 milljörðum. Ari Teitsson, formaður Sambands íslenskra sparisjóða, segir að sparisjóðirnir hafi aldrei fengið niðurfærslu til að mæta þessum kostnaði líkt og viðskiptabankarnir fengu þegar þeir voru endurreistir eftir hrun.

Staða sparisjóðanna er erfið. Sex af tíu sparisjóðum á landinu voru reknir með tapi á síðasta ári og er nú svo komið að tveir sparisjóðir eru komnir undir þau 16,0% mörk um eiginfjárhlutfall, sem FME setti á fjármálafyrirtæki, sem gengist hafa undir fjárhagslega endurskipulagningu.

Ari segir að það sem valdi sparisjóðunum erfiðleikum séu afskriftir sem séu komnar til vegna skuldaniðurfærslu einstaklinga og fyrirtækja. Hann nefnir í því sambandi sértæka skuldaaðlögun, svokallaða 110% leið, dóma Hæstaréttar vegna gengistryggðra lána og dóma vegna vaxtaútreikninga af gengistryggðum lánum.

Fjármálaeftirlitið áætlar að sparisjóðirnir þurfi að afskrifa 3,8 milljarða vegna ólöglegra, gengistryggðra lána.

Ari bendir á að þegar viðskiptabankarnir voru endurreistir eftir hrun hafi eignasafn þeirra verið lækkað og þeim gefið þannig tækifæri til að mæta óhjákvæmilegum afskriftum útlána. Sparisjóðirnir hafi ekki fengið samskonar fyrirgreiðslu, en þeim sé hins vegar ætlað að taka á sig kostnað af skuldaniðurfærslu við einstaklinga og fyrirtæki eins og bankarnir.

Ari segir að til viðbótar hafi stjórnvöld lagt kostnað á fjármálakerfið sem auki rekstrarkostnað þeirra. Í nýbirtri ársskýrslu Bankasýslunnar segir að þessi kostnaður birtist í gjaldi í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), fjársýsluskatti, sem reiknaður er af launum og launatengdum gjöldum, eftirlitsgjöldum til FME auk greiðslna vegna starfsemi Umboðsmanns skuldara. Því til viðbótar er svokallaður bankaskattur, sem er reiknaður af skuldum óháð afkomu, auk þess sem hækkanir á tryggingargjaldi hafa einnig komið til.

Ríkissjóður á hlut í fimm sparisjóðum

Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika segir um rekstur sparisjóðanna: „Vandi sparisjóðanna felst meðal annars í háum rekstrarkostnaði í hlutfalli af reglulegum tekjum. Þannig nam rekstrarkostnaður þeirra í hlutfalli af reglulegum tekjum rúmlega 90% og hlutfall rekstrarkostnaðar af heildareignum var tæplega 4%.“

Ríkissjóður á í dag stofnfé í fimm sparisjóðum. Hann á 90,9% stofnfjár í Sparisjóði Bolungavíkur, 49,5% stofnfjár í Sparisjóði Norðfjarðar, 90% stofnfjár í Sparisjóði Svarfdæla, 55,3% stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja og 75,8% stofnfjár í Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis.

Ari segir að ríkið ætli sér ekki að eiga stofnfé í sparisjóðunum um alla framtíð. Hann segir að ef takist að koma rekstri sparisjóðanna á skynsamlegan rekstrargrundvöll muni heimamenn verða tilbúnir til að kaupa stofnfé í sjóðunum. Hann segir framtíð sparisjóðanna snúast m.a. um hvernig við sjáum fyrir okkur bankakerfið í framtíðinni. Hann segist horfa á þetta að nokkru leyti sem byggðamál og samkeppnismál. Það sé ekki gott að bankakerfið sé einsleitt og að stórum hluta í eigu erlendra aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK