Vill færa jeppatæknina til nútímans

Margir af þeim jeppum sem eru notaðir í jeppaferðaþjónustu voru hannaðir fyrir 15-20 árum og síðan þá hefur mikil þróun orðið á bifreiðum. Þannig hefur t.d. sparneytni aukist til muna og nú er kominn tími á að færa tæknina í jeppaþjónustu inn í nútíðina. Þetta segir Ari Arnórsson, stofnandi bílaframleiðslunnar Ísar, en hann kynnti nýjan bíl fyrirtækisins í dag í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Um leið skrifuðu þrjú fyrstu ferðaþjónustufyrirtækin undir kaupsamninga.

Vilja stækka köku þeirra sem geta keypt jeppaferðir

Hann segir að á Íslandi sé vel hægt að hefja framleiðslu, enda sé hér þekking, tækni og mannskapur. Hann vonast til að áhrifin af svona framleiðslu verði góð á þjóðfélagið og nefnir í því samhengi að þetta geti fært meiri gjaldeyri inn í landið. Þannig vilji hann stækka köku ferðamanna sem geti keypt sér ferðir á stórum jeppum, en að það sé „ekki bara millar sem keyra um á stórum túttum.“ Ari segir að með þessum nýju bílum ætti að vera hægt að laða að fleiri ferðamenn í betur arðbæra hluta ferðaþjónustunnar.

Útflutningur með tíð og tíma

Með tíð og tíma vonast hann til að hægt verði að fara í útflutning, en með því væru einnig skapaðar hreinar útflutningstekjur, en bæði hönnun og framleiðsla bílanna verður hér á landi. „Meðan framleiðslan hér borgar sig, er samkeppnishæf, þá höfum við hana hér,“ segir Ari.

Á næstunni verður farið í að klára prófanir í verkfræðiforritum og unnið að útlitshönnun bílsins, en í framhaldinu á að ráðast í gerð bílanna. Ari segir að það væri gott að geta komið fyrsta eintakinu á götuna fyrir lok ársins, en að stefnt sé að því að bílarnir verði allir tilbúnir fyrir mitt næsta ár.

Frá því að upplýsingar um verkefnið urðu opinberar hefur mikið verið hringt í Ara og segir hann að margir hafi sýnt verkefninu áhuga. Enn sem komið sé þó mest um að ræða rekstraraðila, t.d. í ferðaþjónustu og fyrir flesta þurfi allt að vera fullkomið áður en farið sé að horfa til fjárfestingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK