WOW air kærir frávísun til Hæstaréttar

Wow air hefur ákveðið að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar.
Wow air hefur ákveðið að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar.

Flugfélagið WOW air hefur ákveðið að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa máli félagsins, sem varðar úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli, frá dómi.

Félagið segist ekki geta fallist á úrskurð héraðsdóms og telur hann vera rangan.

„Úthlutun Isavia á afgreiðslutímum stendur í vegi fyrir því að WOW air geti hafið flug til Bandaríkjanna og við það verður ekki unað,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögfræðingar WOW air í málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í seinustu viku frá dómi máli flugfélagsins gegn Isavia, Icelandair og Samkeppniseftirlitinu vegna vanreifunar. WOW air hafði krafist þess að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 27. febrúar yrðu felldir úr gildi.

Wow air sendi Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu er­indi þann 14. mars í fyrra þar sem kvartað var yfir fyr­ir­komu­lagi Isa­via á út­hlut­un á af­greiðslu­tím­um á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Icelandair markaðsráðandi

Í ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins vegna máls­ins frá 1. nóv­em­ber 2013 kem­ur fram að Wow hafi ætlað að bjóða upp áætl­un­ar­flug til Banda­ríkj­anna árið 2014, en for­senda þess hafi verið sú að Wow fengið út­hlutaða nauðsyn­leg­a af­greiðslu­tím­a til lend­ing­ar og brott­far­ar frá Kefla­vík­ur­flug­velli.

Í erindi Wow til Samkeppniseftirlitsins kom einnig fram að úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli væri á hendi Isavia. Það væru einkum tveir aðilar, þ.e. Wow og Icelandair, sem kepptust um að ná sem bestum afgreiðslutímum og var það mat Wow að Icelandair væri markaðsráðandi á markaði fyrir áætlunarflug til og frá Íslandi.

Telur félagið að úthlutun á afgreiðslutímum sé helsta aðgangshindrunin inn á íslenskan flugmarkað.

Isavia hefur hins vegar ítrekað bent á að úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum fari eftir samræmdum evrópskum reglum sem séu lögfestar hérlendis. Isavia geti því ekki haft áhrif á úthlutun afgreiðslutímanna, rétt eins og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að niðurstöðu um í úrskurði þar sem felld voru úr gildi fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins til Isavia um að hlutast til um úthlutunina.

Leiðir af sér fákeppni

Páll Rúnar segir að úthlutun Isavia á þessum afgreiðslutímum standi í vegi fyrir því að Wow air geti hafið flug til Bandaríkjanna. Við það verði ekki unað. „Núverandi ástand leiðir af sér fákeppni og oft einokun sem er til mikils tjóns fyrir neytendur, almenning og Wow air.

Það er því ekkert annað að gera en að fara áfram með málið,“ segir hann.

Isavia og Icelanda­ir byggðu frá­vís­un­ar­kröf­ur sín­ar á því að Wow hefði ekki haft lögv­arða hags­muni af úr­lausn máls­ins og að mála­til­búnaður félagsins væri enn fremur svo óljós og van­reifaður að hann stæðist ekki kröf­ur laga um meðferð einka­mála. 

Í úrskurði héraðsdóms sagði að í stefnu Wow Air kæmu ekki fram skýringar á þeim hagsmunum sem félagið teldi sig eiga af úrlausn málsins. Aðeins kæmu fram almenn sjónarmið.

Þá hefði einnig skort í stefnu Wow að fram kæmu lýsingar á málsatvikum og málsástæðum vegna tilgreindra tímasetninga í ákvörðunarorðinu. 

Var það því niðurstaða dómsins að málið væri vanreifað og óljóst hvað þessi atriði varðar. Féllst hann þess vegna á kröfu Isavia og Icelandair og vísaði málinu frá dómi.

Ameríkuflug félagsins í uppnámi

Eins og kunnugt er ákvað WOW air að hætta við fyr­ir­hugað flug til Norður-Am­er­íku en félagið sagði að ástæðan fyrir því hefði verið sú að það hefði ekki fengið út­hlutaða nauðsyn­lega brott­far­ar­tíma í Kefla­vík. Niðurstaðan hefði ekki eingöngu áhrif á áætlunarflug til Norður-Ameríku, heldur jafnframt fyrirhugaða stækkun félagsins í Evrópu. 

Í tilkynningu frá félaginu sagði jafnframt að sú fækkun ferðamanna sem þetta leiddi til myndi kosta íslenska ferðaþjónustu um 5,5 milljarða á þessu ári.

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka