LATAM pantar A350 breiðþotur

Airbus A350 XWB. Fyrsta vélin verður afhent Qatar Airways í …
Airbus A350 XWB. Fyrsta vélin verður afhent Qatar Airways í lok ársins. AFP

LATAM Airlines Group, stærsta flugfélag Rómönsku-Ameríku, hefur lagt inn pöntun hjá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus á 27 nýjum A350-900 breiðþotum. Verðmætið er talið nema um sjö milljörðum Bandaríkjadala og á afhending að hefjast í lok næsta árs.

Höfuðstöðvar LATAM eru í Santiago, höfuðborg Síle, en þangað var MSN5, einni af fimm A350 XWB flugprófunarvélum Airbus, flogið í gær. Flugið þangað var hluti af flugprófunum Airbus og heldur ferðalagið áfram til Sao Paulo í Brasilíu í dag. 

Um er að ræða heimsferðalag MSN5 sem hófst 24. júlí og lýkur 13. ágúst. Á ferðalaginu er breiðþotunni lent á fjórtán flugvöllum víðsvegar um heim, en er það liður í því að fá öll tilskilin leyfi.

Sterk staða í Rómönsku-Ameríku

Roberto Alvo, framkvæmdastjóri hjá LATAM, sagði í samtali við fjölmiðla eftir að tilkynnt var um pöntun félagsins, að nýju breiðþoturnar yrðu útbúnar allri nýjustu tækni, farþegarýmið yrði rúmgott og sætin þau þægilegustu sem finna mætti í farþegaþotum dagsins í dag.

Airbus hefur sterka stöðu í Rómönsku-Ameríku eru um sextíu prósent allra farþegaþota þar frá evrópska flugvélaframleiðandanum.

Hýrt auga Virgin

Fleiri eru farnir að líta A350 breiðþotuna hýru auga því John Borghetti, forstjóri Virgin í Ástralíu, hrósaði vélinni í hástert þegar hún kom við í Sydney fyrr í vikunni. Þykir það gefa vísbendingu um að flugfélagið komi frekar til með að panta A350 breiðþotur frá Airbus heldur en Draumfara Boeing.

„Við ætlum ekkert að flýta okkur og munum að lokum taka rétta ákvörðun,“ sagði Borghetti. „En þessi vél [A350] er afar tilkomumikil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK