Snýst meðal annars um siðferði

Bryndís Kristjánsdóttir í ræðustól í morgun.
Bryndís Kristjánsdóttir í ræðustól í morgun. mbl.is/Hjörtur

Margt þarf að hafa í huga þegar rætt er hvort rétt sé að skattyfirvöld kaupi gögn um fjármagn í skattaskjólum eða taki með öðrum hætti við slíkum upplýsingum. Þetta sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri í erindi sem hún flutti á ráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda um skattamál í morgun en erindið fjallaði um skattaskjól og hvort skjól væri að finna þar fyrir þá sem vildu komast hjá því að greiða lögbundna skatta.

Fyrir það fyrsta væri ljóst að skattyfirvöld kæmust yfir upplýsingar um skattaskjól með ýmsum öðrum leiðum en upplýsingaskiptasamningum á milli ríkja. Skattyfirvöldum hér á landi hefðu verið boðin til kaups fyrir nokkru slík gögn eins og komið hefði fram. Ekki væri um að ræða fyrsta sinn sem skattrannsóknastjóra væri boðið að kaupa slík gögn. Hins vegar væri um að ræða miklum mun meira magn af gögnum en áður hefði rekið á fjörur embættisins. En þá vaknaði sú spurning hvernig ætti að bregðast við þessu boði. Fyrir það fyrsta væri spurning hvort það væri heimilt.

„Það eru engin ákvæði í skattalögum sem taka á þessu, hvorki af eða á, né reyndar í nokkrum öðrum lögum. Afstaða embættis skattrannsóknastjóra er sú að embættið geti ekki upp á sitt eindæmi gengið frá slíkum samningi. Þó ekki væri fyrir annað en það að stofnun eins og skattrannsóknastjóri hefur enga heimild til að skuldbinda ríkissjóð til greiðslu á nokkrum fjármunum. Þannig að aðkoma fjármála- og efnahagsráðuneytisins að slíkum gerningi verður að vera til staðar. En að öðru leyti sé ég ekki að það séu neinar lagalegar hindranir sem stæðu þessu í vegi,“ sagði Bryndís.

Mikilvægt að tryggja að gögnin séu ósvikin

Fleira þyrfti ennfremur að skoða. Til að mynda hvernig gögn um væri að ræða og hvort hægt væri að nýta þau. Þá meðal annars með tilliti til þess hvort um gömul gögn væri að ræða og jafnvel fyrnd eða ný gögn. Ennfremur þyrfti að liggja fyrir hvernig ætlunin væri að nota gögnin. Við skattaálagningu, í refsimeðferð, til greiningar o.s.frv. Í öllu falli yrði hið minnsta að vera fyrirséð að gögnin skiluðu sér í skattálagningu fyrir þeirri fjárhæð sem kostaði að kaupa þau. Sömuleiðis væri mikilvægt að tryggja að hægt væri að sýna fram á að gögnin væru ósvikin og að þau dygðu þar með fyrir dómstólum ef á þyrfti að halda enda viðbúið að reynt yrði að efast um réttmæti þeirra.

Einnig nefndi Bryndís að seljandi gagnanna kynni að gera kröfur um að hann sætti engum eftirmálum vegna sölu þeirra. Slíkar reglur væru hins vegar ekki fyrir hendi hér á landi. Þá væri þetta að einhverju leyti spurning um siðferði. Hvort í lagi væri að kaupa gögn eða fá þau afhent frá einhverjum sem hefði keypt þau sem hugsanlega hefði komist yfir þau með ólögmætum hætti. Hvort það kynni til að mynda að ýta undir einhverja ólögmæta háttsemi. Í öllu falli sagði Bryndís fyrirséð að skattyfirvöld ættu eftir að komast yfir meiri upplýsingar í framtíðinni með öðrum leiðum en til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK