Tösku- og hanskabúðin að loka?

Tösku og hanskabúðin er mögulega á leiðinni út.
Tösku og hanskabúðin er mögulega á leiðinni út. Kristinn Ingvarsson

Leigusamningur Tösku- og hanskabúðarinnar á Bergstaðastræti 4 rennur út þann 31. júlí og óvíst er hvort starfsemin verði þar áfram. „Við erum bara að leita að leigjendum,“ segir Bjarni Há­kon­ar­son, fram­kvæmda­stjóri á Hót­el Óðinsvé­um.

Hús­eign­in er í eigu Gamma ehf. en það fé­lag á jafn­framt rekstr­ar­fé­lagið sem rek­ur Hót­el Óðinsvé á Þórs­götu 1. Hót­el Óðinsvé leig­ir út hótel­íbúðir á efstu hæð Bergstaðastrætis 4.

Aðspurður hvort samningur Tösku- og hanskabúðarinnar verði framlengdur segir Bjarni það koma til greina. „Ef um semst,“ segir hann. Þá segir hann samninga um húsaleigu vera trúnaðarmál á milli aðila en bætir við að Tösku- og hanskabúðin gæti verið á leiðinni út.

Framkvæmdir ekki á dagskránni

Bjarni segir að framkvæmdir á reitnum séu ekki fyrirhugaðar heldur eigi einungis að fá nýjan leigjanda í húsnæðið. Lóðin við hliðina á, Bergstaðastræti 2, er einnig í eigu Gamma ehf. og hefur áður verið rætt um mögulegar framkvæmdir þar. Bjarni segir ekkert á teikniborðinu. „En það getur vel verið að nýr leigutaki myndi vilja breyta húsnæðinu. Það yrðu þá einu framkvæmdirnar. Við stöndum ekki fyrir neinu,“ segir hann.

Tösku- og hanskabúðin var stofnuð 3. október 1960 af Ingibjörgu Jónsdóttur og Þorgrími Brynjólfssyni. Hún hefur alla tíð verið til húsa á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis.  Gréta Oddsdóttir, eigandi verslunarinnar, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Gamma ehf. er í 50% eigu Pama ehf. og í 50% eigu Punds ehf., skv. Cred­it­in­fo. Pama ehf. er í eigu Valla­ness ehf., sem er í 100% eigu Berg­ljót­ar Þor­steins­dótt­ur fv. flug­freyju.

Pund ehf. er í 100% eigu Hann­es­ar Hilm­ars­son­ar, for­stjóra Air Atlanta. Berg­ljót er gift Magnúsi Stephen­sen, viðskipta­fé­laga Hann­es­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK