Verðmætasta tíst sögunnar

Apple er verðmætasta félag í heimi.
Apple er verðmætasta félag í heimi. AFP

Bandaríski fjárfestirinn Carl Icahn sagði á Twitter-síðu sinni þann 13. ágúst árið 2013 að tæknirisinn Apple væri stórlega undirverðlagður. Hann hefði fyrr um daginn átt gott samtal við Tim Cook, forstjóra félagsins, þar sem hann kallaði eftir því að félagið keypti í meira mæli eigin hlutabréf. 

Þremur mínútum eftir að Icahn birti „tístið“ höfðu hlutabréf þessa verðmætasta félags allra tíma hækkað um 2,7% í verði. Leiða má líkum að því að þetta sé verðmætasta tíst sögunnar, sennilegra verðmætara en sjálft hlutafélagið Twitter. 

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Björns Bergs Gunnarssonar og Gísla Halldórssonar, sérfræðinga hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, á fundi um fjármál Apple síðastliðinn fimmtudag. Þar fjölluðu þeir meðal annars um það hvernig áhrifafjárfestar sem eiga hlut í stórum félögum á borð við Apple beittu sér til að ná sínu fram.

Aðferð Icahns er nýstárleg, svo ekki sé meira sagt, enda er hann sjálfur enginn venjulegur fjárfestir. Hann er þekktur fyrir fjandsamlegar yfirtökur og sína herskáu stefnu, að kaupa stóran hlut í alls konar fyrirtækjum og þrýsta í kjölfarið á stjórnendur um að grípa til breytinga, jafnvel umtalsverðra, á stefnu fyrirtækjanna. Margir minnast baráttunnar um framtíð bandaríska tölvuframleiðandans Dell, sem var aðallega háð í fjölmiðlum, en Icahn gerði þá allt sem í valdi hans stóð til að koma í veg fyrir að stofnandi Dell, Michael Dell, keypti fyrirtækið sitt aftur. Icahn hafði ekki erindi sem erfiði.

Sitja á tugum þúsunda milljarða

En eins og áður sagði kallaði Icahn jafnframt eftir því í tísti sínu að Apple keypti meira af eigin hlutabréfum. Og hann er svo sem ekki sá eini sem hefur kallað eftir því. Félagið situr á himinháu peningafjalli og hefur fyrir vikið sætt töluverðri gagnrýni. Eitt vandamálið felst til að mynda í því að uppfylla þá arðsemiskröfu sem gerð er á peningana. Það er hægara sagt en gert, enda á félagið um það bil 24 þúsund milljarða íslenskra króna í reiðufé.

Það jafngildir tæplega tíu prósentum af reiðufé allra bandarískra fyrirtækja, að því er fram kom í máli Björns Bergs og Gísla, en þeir bentu einnig á að vextir í síðustu skuldabréfaútgáfu félagsins hafi verið þeir lægstu sem bandarísku fyrirtæki hefur nokkurn tímann boðist.

Greinendur hafa þó bent á að eftir að Icahn þrýsti á Cook um að kaupa meira af eigin hlutabréfum, þá hafi félagið stóraukið arðgreiðslur til hluthafa sinna og það sem meira er, keypt fleiri hlutabréf. Hvort þrýstingur Icahns hafi ráðið þar úrslitum skal ósagt látið.

Há framlegð lykilatriði

Gísli og Björn Berg sögðu að vöxtur Apple hefði verið ótrúlegur á undanförnum misserum. Seinasti ársfjórðungur félagsins hefði verið sá arðbærasti hjá nokkru fyrirtæki í sögunni. Einnig væri það ævintýralegt hvernig félaginu hefði tekist að vera eins arðbært og raun ber vitni á markaði sem væri í sjálfu sér ekki mjög gróðavænlegur. Framlegðin væri heilt yfir lítil á raftækjamarkaðinum, eitthvað í kringum 5-10%, nema hjá vörum Apple, þar sem hún væri á bilinu 30-40%.

Gísli nefndi einnig að tæplega 70% af heildarhagnaði Apple kæmi til vegna einnar vöru, iPhone-símans vinsæla. Það væri „alveg ótrúlegt“, sérstaklega þegar haft er í huga að um er að ræða langverðmætasta félag sögunnar. Tekjurnar af iPodnum, sem margir segja að hafi komið Apple á kortið á sínum tíma, hafa dregist saman undanfarin ár og eru tekjur félagsins af vörunni nú undir 1% af heildartekjum þess. Tekjurnar af iPodnum eru samt sem áður hærri en samanlagðar tekjur fjögurra stærstu fyrirtækjanna í Kauphöll Íslands, Össurar, Haga, Marels og Icelandair.

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK