Erfiðar aðstæður hjá Norðlenska

Frá sláturhúsi Norðlenska.
Frá sláturhúsi Norðlenska. Skapti Hallgrímsson

Norðlenska var gert upp með 48,1 milljónar króna tapi árið 2014 á móti 138,4 milljóna króna hagnaði árið 2013. Markaðsaðstæður voru erfiðar á síðastliðnu ári og samkeppni mikil í öllum kjötgreinum. Það er mat stjórnenda Norðlenska að mikilvægt sé að hagræða í innlendri framleiðslu og vinna áfram að öflugri vöruþróun og nýsköpun í greininni. 

Þetta kemur fram á vef Norðlenska.

„Við vinnum af kappi að því að leita allra tækifæra til að hagræða í rekstri okkar, utanaðkomandi þættir líkt og gengisþróun eru illviðráðanlegir og hefur afkoma af útflutningi farið mjög versnandi að undanförnu,“ er haft eftir Sigmundi Ófeigssyni, framkvæmdastjóra Norðlenska.

Mikið framboð af kjöti

„Innanlandsmarkaðurinn hefur einkennst af miklu framboði af kjöti sem hefur skilað því að Norðlenska hefur tekið hráefnis- og aðrar kostnaðarhækkanir á sig að mestu. Við horfum jákvætt fram á veginn og höfum trú á því að þær aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sem við höfum gripið til muni skila árangri í náinni framtíð,“ er haft eftir honum.

Velta Norðlenska voru rúmir 5 milljarðar í fyrra, rekstrarhagnaður félagsins áður en kemur að afskriftum og fjármagnsliðum (EBITDA) 146,8 milljónir. „Það er mitt mat að Norðlenska búi við mikinn starfsmannaauð, fólkið er tilbúið til að takast á við erfiðar aðstæður og vera þátttakendur í framtíðaruppbyggingu fyrirtækisins svo ég horfi bjartsýnn fram á veginn,“ er haft eftir Sigmundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK