„Þetta eru viðbrögð manns sem er hræddur,“ segir Jóhannes Bjarni Björnsson, eigandi Landslaga, sem sér um að reka hópmálsóknina gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. „Þetta gera þeir sem eiga peninga. Þeir reyna að hræða fólk með því að beita áhrifum sínum og hótunum um að fara gegn því með háar fjárkröfur sem enginn fótur er fyrir,“ segir hann.
Björgólfur Thor sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann kallar fyrirhugaða hópmálsókn „gróðabrall lögmanna“. Hann hefur kvartað til úrskurðarnefndar lögmanna og kallað málið auglýsingaskrum.
Líkt og greint hefur verið frá var birt heilsíðuauglýsing í dagblöðum í morgun þar sem vakin var athygli á hópmálsókninni - sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Talið er að Björgólfur hafi með saknæmum hætti komið í veg fyrir að hluthafar Landsbankans fengju upplýsingar um umfangsmiklar lánveitingar gegn honum og einnig að hann hafi brotið gegn reglum um yfirtöku.
Í yfirlýsingunni gerði Björgólfur athugasemd við aðgangseyri í málsóknarfélagið, sem nemur að lágmarki 5.000 krónum en fer stighækkandi eftir því hve marga hluti viðkomandi hluthafi átti auk þess sem lögmannsstofan hirðir 10% af mögulegum skaðabótum.
Jóhannes segir að stjórn málsóknarfélagsins hafi ákveðið að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti til þess að búa til fastan lágan kostnað þar sem baráttan fyrir dómstólum gæti orðið löng. Með þessu fyrirkomulagi viti menn betur en ella hvað hún muni kosta. „Þannig er þetta ódýrt fyrir þá sem eiga minnstu hagsmunina en þeir borga meira sem hafa meiri hagsmuna að gæta,“ segir hann.
Þá segir hann 10% hlutdeild af mögulegum heimtum ekki vera óvenjulega sé hún borin saman við sambærileg mál annars staðar eða þóknanir lögmanna. Þátttakendum finnist það einnig vera kostur að hafa þóknunina árangurstengda.
Björgólfur benti á að félagar málsóknarfélagsins beri óskipta ábyrgð á málinu gagnvart honum samkvæmt samþykktum félagsins. Verði honum dæmdur málskostnaður geti hann því valið hvaða félagsmann sem er og krafið hann um allan kostnaðinn, ekki bara hlutdeild hans. Jóhannes bendir á að kostnaðurinn sé óskiptur samkvæmt lögum. Ekkert annað sé í boði.
„Hann á aldrei kröfu á hvern og einn fyrir sig nema að málsóknarfélagið geti ekki staðið undir sínum skuldbindingum. Og það mun aldrei koma til þess,“ segir Jóhannes.
Björgólfur vísaði þá einnig til þess að félagsmenn gætu þurft að bera óskipta ábyrgð á bótum ef rangar ásakanir lögmanna leiddu til tjóns fyrir hann. „Þetta er auðvitað bara vitleysa,“ segir Jóhannes. „Ætlar hann að segja: Ég fer í mál við þig ef þú ferð í mál við mig? Menn verða að passa sig á því að láta ekki draga sig út í svona vitleysu,“ segir hann.
Aðspurður svarar Jóhannes að margir hluthafar séu búnir að hafa samband. Þá segist hann hafa verið búinn að kanna baklandið áður en lagt var af stað með málið.
Inntur eftir viðbrögðum við orðum Ragnhildar Sverrisdóttur, talskonu Björgólfs, um að lífeyrissjóðirnir ætli að halda sig fjarri málinu að Stapa undanskildum, segir Jóhannes að hún sé að segja fréttir. „Þeir eru ekki búnir að svara mér. Einhverjir eru þó búnir að staðfesta þátttöku, en hvernig má vera að hún viti þetta, þegar þeir hafa ekki svarað,“ segir Jóhannes.
Kynningarfundur um hópmálsóknina verður haldinn á morgun klukkan 17 í sal V101 í Háskólanum í Reykjavík.