Rangt og langsótt hjá Björgólfi

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson

Fullyrðingar Björgólfs Thors Björgólfssonar um málsóknarfélag hluthafa Landsbankans eru ýmist „rangar, villandi, langsóttar eða óraunhæfar“. Málsóknarfélag hluthafa Landsbankans hafnar því að félagið sé að reyna að „lokka til sín viðskiptavini á röngum forsendum“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Líkt og fram kom í gær sendu bæði Björgólfur og talskona hans frá sér yfirlýsingar vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar. Hópmálsóknin var auglýst í dagblöðum í gær. 

Talið er að Björgólf­ur hafi með sak­næm­um hætti komið í veg fyr­ir að hlut­haf­ar Lands­bank­ans fengju upp­lýs­ing­ar um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar gegn hon­um og einnig að hann hafi brotið gegn regl­um um yf­ir­töku.

Björgólf­ur Thor sagði málið vera „gróðabrall lög­manna“. Hann hef­ur kvartað til úr­sk­urðar­nefnd­ar lög­manna og kallað málið aug­lýs­inga­skr­um.

Nauðsynlegt að auglýsa

Í yfirlýsingu frá málsóknarfélaginu er bent á að það sé ekki bannað að auglýsa hópmálsókn. „Til þess að koma upplýsingum til allra hluthafa Landsbanka Íslands hf. er nauðsynlegt að auglýsa slíkt í fjölmiðlum. Aðrar aðferðir verða að teljast óraunhæfar,“ segir þar.

Þá segir að fullnægjandi sönnunargögn um saknæma háttsemi Björgólfs liggi fyrir að mati þeirra sem að málshöfðuninni standa. „Allir hluthafar munu hafa allar nauðsynlegar upplýsingar til að taka ákvörðun um þátttöku í málsóknarfélaginu á eigin forsendum.“

Tryggja fjármögnun

Í samningi málsóknarfélagsins við þá lögmannsstofu sem hefur tekið að sér málareksturinn var samið um fasta þóknun, 20 milljónir króna auk virðisaukaskatts, og að auki fá lögmenn 10% af ávinningi af málaferlunum. Þátttakendur að greiða að lágmarki 5.000 krón­a aðgangseyri sem fer stig­hækk­andi eft­ir því hve marga hluti viðkom­andi hlut­hafi átti.

Björgólfur gerði athugasemd við þetta en líkt og Jó­hann­es Bjarni Björns­son, eig­andi Lands­laga, sem sér um að reka hóp­mál­sókn­ina, sagði í gær í samtali við mbl, er það gert til þess að tryggja fjármögnun áður en málarekstur hefst. 

Enginn óheppinn þátttakandi

Í yfirlýsingunni segir að lokum að Björgólfur hafi ranglega haldið því fram að allur kostnaðurinn geti endað hjá einum óheppnum þátttakanda í málsóknarfélaginu sökum óskiptrar ábyrgðar á greiðslum.

„Umfjöllun Björgólfs um ábyrgð félagsmanna á hugsanlegu tjóni sínu vegna „rangra ásakana“ eru afar langsóttar og óraunhæfar, svo ekki sé meira sagt. Þá er ekki unnt að hafa uppi kröfur á hendur málsóknarfélaginu og því getur Björgólfur ekki höfðað mál á hendur félaginu til að skapa kostnað, svo dæmi sé tekið. Við því sá löggjafinn þegar í upphafi,“ segir í yfirlýsingunni.

Hluthafar í Landsbankanum standa að málsókninni.
Hluthafar í Landsbankanum standa að málsókninni. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK