Þrýstir upp íbúðaverði miðsvæðis

Raunverð íbúða miðsvæðis í Reykjavík hefur hækkað allverulega undanfarin ár.
Raunverð íbúða miðsvæðis í Reykjavík hefur hækkað allverulega undanfarin ár. mbl.is/Ómar

Fjöldi íbúða sem eru leigðar út til erlendra ferðamanna hér á landi í gegnum gistivefi á borð við airbnb dregur úr framboði á markaði og má ætla að hagnaðarvon hækki íbúðaverð í miðborginni.

Raunverð íbúða í miðborg Reykjavíkur hækkaði um 26% frá árinu 2010 til ársins 2014. Þessi hækkun endurspeglar mikla eftirspurn eftir íbúðum í miðborginni en ætla má að hún hafi einnig eitthvað með útleigu íbúða til ferðamanna að gera.

Eru líkur á því að þessi mikla eftirspurn ferðamanna eftir leiguíbúðum muni halda áfram að þrýsta upp fasteignaverði í miðborginni.

Þetta segir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, í samtali við mbl.is. Hann fjallaði meðal annars um áhrif deilihagkerfisins á fasteignaverð í skýrslu sem hann vann fyrir Íslandsbanka fyrr á árinu.

Framboð gistirýma meira en tvöfaldast

Eins og kunnugt er hefur ferðamönnum fjölgað gífurlega hér á landi á undanförnum árum og þrátt fyrir mikla fjölgun gistirýma, hótela og gistiheimila, hefur hún engan veginn dugað til. Segja má að sprenging hafi orðið í fjölgun gistinátta í íbúðarhúsnæði en árin 2009 og 2010 nær fimmfaldaðist fjöldi gistinátta.

Magnús Árni segir margt koma til, þá einna helst sprenging í umfangi deilihagkerfisins svonefnda.

Með deilihagkerfi er meðal annars átt við viðskipti milli einstaklinga þar sem nytjahlutir, bifreiðar eða íbúðir eru lánaðar gegn greiðslu.

Fram kom í fréttaskýringu Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu fyrr á árinu að framboð gistirýma í Reykjavík og nágrenni á gistivefnum airbnb hefði verið 137% meira í janúar en í sama mánuði í fyrra. Alls hefðu 1.300 rými verið í boði. Aukningin á landinu öllu var 133% og voru gistirýmin alls 1.500. 30% gistirýma var herbergi en 70% íbúðir eða hús.

Það þýðir að 910 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eru í ferðamannaleigu annað hvort hluta úr ári eða allt árið um kring.

Afsprengi kreppunnar

Magnús Árni bendir á að þessi mikla aukning hafi haft ýmsa kosti í för með sér. Þannig höfum við til að mynda getað tekið á móti öllum þessum ferðamannastraumi á undanförnum árum þrátt fyrir að næg hótelherbergi hafi ekki verið til staðar, sér í lagi yfir háannatímann á sumrin. Eins hafi aukin útleiga til ferðamanna gert það að verkum að þeir verji minna fé í gistiþjónustu og þeim mun meira í alls kyns afþreyingu og skipulagðar ferðir, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni.

Deili­hag­kerfið hef­ur vaxið ört á und­an­förn­um árum og segir Magnús Árni það komið til að vera. Hann segir einn anga kreppunnar sem skall yfir heimsbyggðina árið 2008 sá að fólk hafi reynt eftir besta megni að fá tekjur fyrir notkun á eigum sínum, hvort sem það var bíll eða íbúð. Deilihagkerfið hafi ekki skapað nýjar vörur og þjónustu, heldur sé drifkrafturinn fólginn í lægri viðskiptakostnaði en áður, sem leiðir til þess að auðveldara er að skiptast á vörum og þjónustu.

Hann segir mikilvægt að stjórnvöld sporni ekki gegn framþróun deilihagkerfisins. Mestu skiptir að stjórnvöld átti sig á bæði kostum og göllum þess og séu viðbúin að takast á við þau vandamál og tækifæri sem deilihagkerfið skapar.

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics.
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics. mbl.is/Ómar
Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, …
Fjöldi íbúða í Reykjavík eru til leigu á vefn­um Airbnb, bæði íbúðir sem ein­stak­ling­ar leigja út sem og stærri leigu­fé­lög. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK