Framlög til heilbrigðismála aukast um 1,6 milljarð króna í fjárlögum næsta árs en frumvarpið var lagt fram á Alþingi klukkan 13 í dag.
Af þessum 1,6 milljarði króna fara 500 milljónir til styrkingar á rekstri Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og heilbrigðisstofnana. Þá fara 500 milljónir króna til styrkingar á rekstri heilsugæslu og 300 milljónir króna til framkvæmdaáætlunar um byggingu nýrra hjúkrunarheimila.
Til viðbótar við framangreinda hækkun framlaga til heilbrigðismála er í frumvarpinu veitt 900 milljóna króna aukið framlag vegna fullnaðarhönnunar á meðferðarkjarna á lóð LSH við Hringbraut og til byggingar á sjúkrahóteli á árinu 2016.
Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld Landspítalans nemi um 50 milljörðum króna á næsta ári og jafngildir það um fjögurra milljarða króna hækkun frá fjárlögum þessa árs að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum.
Skýrist það í fyrsta lagi af 325 milljóna króna fjárheimild til að styrkja rekstrarstöðu sjúkrahússins vegna nýrra verkefna.
Meðal þeirra er þjálfun starfsfólks vegna reksturs jáeindaskanna við spítalann sem tilkynnt hefur verið að spítalanum verði gefinn. Í frumvarpinu segir að slíkir skannar gegni mikilvægu hlutverki við greiningu krabbameina, gigtar- og taugasjúkdóma og eru rannsóknir með slíkum skönnum orðnar staðalrannsóknir í þeim löndum sem við viljum helst bera okkar heilbrigðisþjónustu saman við.
Í öðru lagi fellur niður 414 milljóna króna fjárheimild til samræmis við fyrirliggjandi áætlun um endurnýjun á tækjabúnaði á sjúkrahúsinu og samþykkt var í ríkisstjórn í nóvember 2013. Aðrar breytingar eru launa- og verðlagsbætur og nema þær um 4.170 milljónum króna.
Í frumvarpinu má sjá mestu útgjaldaaukninguna í heilbrigðismálum, eða um 3,6 milljarða króna.
Aukningin skýrist meðal annars af fyrrnefndu framlagi til fullnaðarhönnunar meðferðarkjarna og byggingar sjúkrahótels á lóð Landspítalans. Þá aukast útgjöld sjúkratrygginga um 600 milljónir króna sem skýrist af magnvexti milli ára og áframhaldandi innleiðingu á samningi um tannlækningar barna.
Alls nema útgjöld til heilbrigðismála 155,4 milljörðum króna en í fyrra námu þau 151,8 milljörðum og mælist vöxturinn því um 2,3 prósent milli ára.
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir þriðju hallalausu fjárlögunum í röð. Gert er ráð fyrir 15,3 milljarða króna afgangi á næsta ári.