Afgangur og lækkun skulda

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjármálafrumvarpið fyrir blaðamönnum í hádeginu.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjármálafrumvarpið fyrir blaðamönnum í hádeginu.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir þriðju hallalausu fjárlögunum í röð. Gert er ráð fyrir 15,3 milljarða króna afgangi á næsta ári. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði að útlit væri fyrir stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs á næstu árum með möguleika á að grynnka á skuldum þegar hann kynnti frumvarpið í Hörpu í hádeginu. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi kl. 13.

Bjarni sagði að stefnt væri að því að lækka skuldir ríkissjóðs niður í 40% af landsframleiðslu árið 2018 úr 80%. Í lok þessa árs sé gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði 62% af landsframleiðslu við lok þessa árs og um 50% í lok þess næsta.

„Það væri verulegur árangur og ef eitthvað er getum við haft væntingar um að geta gengið enn lengra, allt eftir hvernig spilast úr framkvæmd afnámsáætlunar,“ sagði Bjarni.

Tollar á allt nema tilteknar matvörur afnumdir

Tekjuskattur einstaklinga lækkar í tveimur áföngum og verður skattþrepum fækkað úr þremur í tvö við þann síðari. Skattprósenta í lægra þrepið verður lækkuð úr 22,86% í 22,68% 1. janúar 2016 og í 22,50% við ársbyrjun 2017. Álag í milliþrepi verður lækkað um helming frá ársbyrjun 2016 til ársbyrjunar 2016 og fellur það saman við neðsta þrepið um áramótin 2016-2017.

Þá verða tollar á fatnað og skó afnumdir um áramótin og áramótin 2016-17 verða tollar á aðrar vörur en tilteknar matvörur fjarlægðir. Þannig verður ýmis fatnaður, heimilistæki, búsáhöld, barnavörur og bílavarahlutir tollfrjálsir.

Bjarni sagði að eftir þessar breytingar standi verslun á Íslandi fyllilega jafnfætis allri sérvöruverslun á Norðurlöndunum. Netverslun verði einnig hagstæðari. Einu tollarnir sem eftir verða verði á tilteknar matvörur en Bjarni sagði hann aðeins munu standa undir 0,3% af heildartekjum ríkisins.

Meira til heilbrigðis- og húsnæðismála

Ekki gerð frekari aðhaldskrafa til heilbrigðis- og menntakerfisins í fjárlögum næsta árs. Framlög til heilbrigðismála aukast um 1,6 milljarð króna með styrkingu á rekstrargrunni sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, framlögum til heilsugæslu og framkvæmda við ný hjúkrunarheimili. Jafnframt er gert ráð fyrir framlögum til að ljúka hönnun meðferðarkjarna Landspítala og byggingu sjúkrahótels.

Gert er ráð fyrir 2,6 milljarða króna framlagi til húsnæðismála og minni skattbyrði leigutekna til að hvetja til langtímaleigu.

Lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið

Bjarni sagði að vaxtagjöld ríkissjóðs hefðu lækkað á milli ára um 8,1 milljarð borið saman við fjárlagafrumvarp þessa árs og þróunin hafi verið hagstæðari en gert var ráð fyrir. Langtímaþróunin fari sömuleiðis hallandi niður á við. Vaxtagjöldin lækki umtalsvert að nafnvirði og verulega sem hlutfall af landsframleiðslu.

 Gangi hagspár eftir sé Ísland statt í lengsta hagvaxtarskeiði í sögunni. Það verði til bata á stöðu ríkissjóðs þó áfram þurfi að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum og veita útgjaldavexti aðhald.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir stöðugleikann í efnahagslífinu, að nýta uppsveifluna til að búa í haginn fyrir erfiðari tíma því það vita allir að hagsveiflur ganga niður,“ sagði Bjarni.

Frétt á vef fjármálaráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert