Aukinn hagnaður hjá VÍS

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður VÍS tvöfaldaðist nærri því milli ára og nam tæpum 2,1 milljarði króna á síðasta ári samanborið við 1,2 milljarða króna hagnað árið 2014. Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir vöxt í tjónatíðni vera áhyggjuefni.

Í afkomutilkynningu er haft eftir Sigrúnu að góð afkoma skýrist öðru fremur af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna. Fjárfestingastarfsemin hafi gengið vel á árinu og var jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum. Ávöxtun skuldabréfa hafi þá einnig verið góð og eins hafi innlenda hlutabréfasafn félagsins skilað góðri afkomu. Ávöxtun erlendra eigna félagsins olli hins vegar vonbrigðum að sögn Sigrúnar.

Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu rúmum fjórum milljörðum króna samanborið við 2,4 milljarða árið 2014. Hagnaður af rekstri án niðurfærslu óefnislegra eigna var 3,2 milljarðar króna og samsett hlutfall var 101,5 prósent samanborið við 104,5 prósent árið 2014.

Ávöxtun fjáreigna nam 12,2 prósentum á árinu, en 7,1 prósent árið 2014. Óefnislegar eignir voru færðar niður alls um 1,1 milljarð króna að teknu tilliti til skatta. Arðsemi eigin fjár nam 11,3 prósentum, en hefði numið 17,5 prósentum ef ekki hefði komið til niðurfærslu óefnislegra eigna.

Haft er eftir Sigrúnu að ánægjulegt hafi verið að sjá ágætan vöxt í innlendum iðgjöldum en bókfærð iðgjöld hækkuðu um 5,8 prósent á árinu. 

Þrátt fyrir iðgjaldavöxt sé vöxtur í tjónatíðni hins vegar áhyggjuefni og verði það áfram áskorun að ná ásættanlegri afkomu af mörgum greinaflokkum vátrygginga.

Fimm milljarða arður

Arðgreiðslutillaga stjórnar VÍS tekur mið af markmiði um gjaldþolshlutfall og nemur 2,17 krónum á hlut eða samtals um fimm milljörðum króna. Stjórn VÍS hefur sett félaginu markmið um áhættuvilja með vikmörkum sem auðveldar stýringu á heildaráhættu félagsins. Markmið um gjaldþolshlutfall er 1,50 með neðri mörkum 1.35.  

Áætlað gjaldþolshlutfall eftir útgreiðslu arðs er 1,55.

Heildareignir í árslok 2015 voru 44,8 milljarðar króna og skuldir 27,3 milljarðar króna.  Hlutfall auðseljanlegra eigna í eignasafni félagsins var 73,7 prósent um áramótin, þar af eru 29,1 prósent í ríkisskuldabréfum og handbæru fé. „Félagið er því vel í stakk búið að mæta skuldbindingum sínum,“ segir í afkomutilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK