Hópmálsókn gegn Björgólfi vísað frá

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hópmálsókn hluthafa í Landsbankanum gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni var vísað frá dómi í dag. Ekki var talið að sýnt fram á tjón félagsmanna. Lögmaður málsóknarfélagsins ætlar að skjóta úrskurðinum til Hæstaréttar.

Málsóknarfélaginu var einnig gert að greiða 400 þúsund krónur í málskostnað.

Tekist var á um frávísunarkröfu Björgólfs í miðjum febrúar og bar lögmaður Björgólfs, Reimar Pétursson, því við að ekki hefði verið sýnt fram á tjón.

Hann sagði fyrir dómi að eðli fjár­fest­ing­ar væri þannig að af henni gæti alltaf hlot­ist tjón. Stefn­end­ur þyrftu að út­skýra ná­kvæm­lega hvernig hin meinta bóta­skylda hátt­semi hafi valdið þeim meira tapi en ella hefði orðið. 

All­ir fé­lags­menn þurftu í upp­hafi málsóknarinnar að greiða a.m.k. fimm þúsund krón­ur til þess að geta tekið þátt. Þetta er lág­marks­kostnaður­inn og átti við ef fé­lags­maður átti færri en 100 þúsund hluti í Lands­bank­an­um. Þeir sem áttu 100 til 300 þúsund hluti þurftu að greiða 15 þúsund krón­ur og þeir sem áttu 300 til 500 þúsund hluti þurftu að greiða 40 þúsund krónur.

Alls stóðu 269 ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki á bak við mál­sókn­ina við þingfestingu málsins. Árni Harðar­son, stjórn­ar­maður og lögmaður Al­vo­gen, á rúm sex­tíu pró­sent þeirra hluta­bréfa sem standa málsókninni að baki.

Sumir gætu fengið endurgreitt

Í lok október var félagið komið með ríflega sex­tíu millj­óna króna sjóð en talið var að félagið þyrfti að minnsta kosti þrjátíu milljónir króna til þess að standa straum af öllum kostnaði við rekstur málsins. Meira en nóg hafði því safnast.

Sagði Jóhannes þá í samtali við mbl að ef einhverjir fjármunir yrðu eftir í félaginu myndu þeir sem greiddu fram­an­greind fimmtán pró­sent af nafn­verði bréfa sinna fá hlut­falls­lega end­ur­greitt. Aðrir ekki.

Þókn­un lög­manna fyrir málareksturinn er bæði föst og ár­ang­ur­s­tengd samkvæmt reglum málsóknarfélagsins. Félagið greiðir lög­mönn­um tutt­ugu millj­óna króna fasta þókn­un auk virðis­auka­skatts, sem greiðist í þrem­ur hlut­um.

Fyrsti hlut­inn, og helm­ing­ur fjár­hæðinn­ar kom til greiðslu við þing­fest­ingu máls­ins fyr­ir héraðsdómi. Þá stendur til að greiða fimm millj­ón­ir þegar efn­is­leg niðurstaða ligg­ur fyr­ir og að lok­um stendur til að greiða  fimm millj­ón­ir króna þegar niðurstaða dóm­stóla um bóta­skyldu ligg­ur fyr­ir.

Ef málið vinnst verður þá einnig tíu pró­sent hags­muna­tengd þókn­un dreg­in frá við upp­gjör á skaðabót­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK