Kostar sitt að fara til tunglsins

Buzz Aldrin að störfum á tunglinu í júlí 1969 þegar …
Buzz Aldrin að störfum á tunglinu í júlí 1969 þegar fyrsta mannaða geimfarið lenti þar. NASA

Tæknirisinn Apple hefði getað staðgreitt tunglferðaáætlun Bandaríkjamanna með lausafé sínu einu saman og samt átt 10.000 milljarða íslenskra króna í afgang. Þetta var á meðal þess sem kom fram á fræðslufundi VÍB um kostnað við mannaðar geimferðir í síðustu viku. Kostnaðurinn við tunglferðirnar nam 25-földum fjárlögum Íslands.

Hagfræði himingeimsins var umfjöllunarefni fræðslufundar VÍB en á honum fóru Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, og Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, yfir kostnaðinn við að koma mönnum til tunglsins og út í geim.

Heildarkostnaðurinn við Apollo-áætlun Bandaríkjamanna um koma mönnum til tunglsins nam rúmum 17.000 milljörðum íslenskra króna að núvirði. Það næmi um 3,4% af fjárlögum Bandaríkjanna í dag. Til samanburðar nema fjárlög íslenska ríkisins 681 milljarði króna fyrir árið 2016. Björn sagði að í íslensku samhengi væru upphæðirnar stjarnfræðilegar en setti þær í samhengi við aðrar hagstærðir.

Þannig eru vaxtagjöld bandaríska ríkisins á þessu ári rúmir 28.000 milljarðar króna. Apollo-áætlunin stóð hins vegar yfir í 12-13 ár og skiptist kostnaðurinn yfir það tímabil. Lausafé Apple sé tæpir 28.000 milljarðar króna og hefði fyrirtækið því getað staðgreitt tunglferðaáætlunina í reiðufé án þess að ganga á aðrar eignir sínar.

Björn sagði að féð sem lagt var í tunglferðirnar og geimleiðangra almennt fuðraði ekki bara upp í eldstrókum eldflauga. Ýmis ávinningur hafi verið að ferðunum á borð við stökk fram á við í tækni sem nýtist jarðarbúum í daglegu lífi. Geimferðir hafi skapað fjölda starfa fyrir hámenntað fólk í þeim löndum sem hafa tekið þátt í að gera þær að veruleika. Talað væri um að hver króna sem hafi verið lögð í NASA hafi skilað sér sex til tífalt til baka.

NASA fær svipað og þjóðkirkjan á Íslandi

Einnig var fjallað um fjármál geimstofnana ríkja heims á fundinum. Framlag Bandaríkjanna til geimvísindastofnunar sinnar NASA nema um 0,5% af fjárlögum ríkisins. Þegar geimskutluáætlunin var í gangi, sem var gríðarlega kostnaðarsöm, námu útgjöldin um 1% af fjárlögum. Til samanburðar nema framlög til varnarmála um 17% á þessu ári og hafa þau þó dregist saman.

Til að heimfæra þetta hlutfall upp á íslenskan veruleika spurði Björn Sævar Helga hvort hann gæti nefnt íslenska ríkisstofnun sem fengi sömuleiðis um það bil 0,5% af útgjöldum ríkisins. Sævar Helgi hafði svar á reiðum höndum en það er þjóðkirkjan.

„NASA er að fá jafnstóran hluta af útgjöldum hins opinbera og ríkið er að greiða beint til þjóðkirkjunnar heima. Það er áhugavert að eiga þarna tvær stofnanir sem eru á svipuðu reiki,“ sagði Björn.

Tvö Marsgeimför fyrir sama pening og einn Gareth Bale

Rússar létu töluvert til sín taka í geimrannsóknum eftir að efnahagsleg uppsveifla hófst þar snemma á síðasta áratug. Á tímabili voru heildarútgjöld þeirra til geimvísindastofnunarinnar Roscomos farin að nálgast það að vera helmingur af útgjöldum Bandaríkjanna til NASA þrátt fyrir efnahagslegan aðstöðumun landanna tveggja.

Björn sagði hins vegar að hrapandi olíuverð hafi gjörbreytt aðstæðum Roscosmos. Í fyrra hafi verið tilkynnt um gríðarlegan niðurskurð til stofnunarinnar en um áramótin var hann hertur enn. Framlögin til stofnunarinnar hafi dregist saman um meira en helming.

Ekki væri hægt að taka mark á opinberum tölum um útgjöld Kínverja til sinnar geimáætlunar. Talið sé að þeir eyði í raun um það bil tíu sinnum meira til hennar en þeir gefa upp.

Indverjar hafi vakið eftirtekt fyrir að halda niðri kostnaði við geimferðir. Gervihnöttur sem þeir sendu til Mars til að leita að merkjum um metan í lofthjúpi reikistjörnunnar hafi kostað minna að það sem knattspyrnufélagið Paris Saint-German greiddi Chelsea fyrir brasilíska varnarmanninn David Luiz. Hægt væri að kaupa tvö Marsför fyrir féð sem Real Madrid keypti Gareth Bale á.

Hægt væri að senda tvö indversk geimför til Mars fyrir …
Hægt væri að senda tvö indversk geimför til Mars fyrir sama pening og Real Madrid keypti Gareth Bale af Tottenham. AFP

Eins og að lenda Hallgrímskirkju í Eyjafirði

Afrek geimferðafyrirtækisins SpaceX sem athafnamaðurinn Elon Musk á hafa vakið athygli að undanförnu. Það hefur unnið að því að draga verulega úr kostnaði við geimskot með því að þróa tækni til þess að geta endurnýtt eldflaugar. Í síðustu viku tókst fyrirtækinu að lenda fyrsta þrepi Falcon 9-eldflaugar sinnar á fjarstýrðum pramma á hafi úti. Áður hafði því tekist að lenda eldflaugarhluta á landi.

Sævar Helgi mærði afrek eldflaugaverkfræðinga SpaceX sem hann sagði gefa sér gæsahúð. Fyrsta þrep eldflaugarinnar væri um það bil sjötíu metrar á hæð, svipað og Hallgrímskirkjuturn, og pramminn væri á stærð við handboltavöll.

„Þetta er pínulítið eins og að skjóta Hallgrímskirkju hálfa leið út í geiminn og láta hana svo lenda á fjarstýrðum pramma í Eyjafirði,“ sagði Sævar Helgi.

Til mikils er að vinna eins og Björn lýsti. Þannig er kostnaður við eina eldflaug SpaceX um sjö og hálfur milljarður króna en af því kosti eldsneytið sjálft aðeins um þrjátíu milljónir króna. Kostnaðurinn við að skjóta eldflauginni sem fyrirtækinu tókst að lenda á föstudag aftur á loft sé nú metinn um fimm og hálfur milljarður. Langtímamarkmið SpaceX sé að koma kostnaðinum undir eina milljón dollara. Björn sagði að ef það tekst þá geti menn farið út í geim nánast eins og þeir vilja.

Hefur ekki trúa á Marsferðum í bráð

Að lokum barst talið að mögulegum mönnuðum leiðöngrum til Mars. Björn sagði að gríðarlegur kostnaðarmunur væri á því að senda könnunarjeppa til rauðu reikistjörnunnar eða menn. Eins og sést hafi á tunglferðunum fylgi því mikill kostnaður að senda menn út í geim. Á Mars væri ennfremur verið að tala um allt aðrar vegalengdir og aðstæður. Sævar Helgi sagðist efast um að fyrsti maðurinn til að stíga fæti á Mars væri fæddur.

„Af því að virðumst ekki hafa neinn sérstakan metnað til þess að fara þangað, að minnsta kosti kosti ekki pólitíkusarnir sem ráða fjármununum. Þannig að ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að við séum að fara til Mars næstu áratugina jafnvel, ekki nema SpaceX og þessi einkafyrirtæki nái virkilega að draga verulega úr kostnaðinum,“ sagði Sævar Helgi.

Hvatti hann Íslendinga til þess að taka þátt í evrópsku geimstofnunni ESA eins og smáríki eins og Lúxemborg gerðu. Með því fengju íslenskir vísindamenn greiðari aðgang að gervihnöttum til að fylgjast með eldfjöllum og veðri og íslensk ungmenni fengju von um að geta komist út í geim einn daginn.

Kostnaðurinn við að ganga í ESA væri á við eina Álftaneslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK