Bláa lónið hagnast um 2,2 milljarða

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hagnaður Bláa lónsins jókst töluvert milli ára og nam 2,2 milljörðum króna eftir skatta á síðasta ári. Hluthafar eiga von á 1,4 milljarða króna arðgreiðslu. Segja má að síðasta ár hafi reynst Bláa lóninu gott því metfjöldi gesta kom í lónið og rekstrartekjur námu tæpum átta milljörðum króna.

Hagnaður Bláa lónsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir, EBITDA, var 3,1 milljarður króna.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Bláa Lónsins hf. sem hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess. Dótturfélögin eru alls sex talsins, Blue Lagoon Clinic ehf., BLUE LAGOON international ehf., Blue Lagoon Travel ehf., Eldvörp ehf., Hótel Bláa lónið ehf. og Íslenskar heilsulindir ehf.

Tekjur Bláa lónsins á árinu 2014 námu 6,1 milljarði króna og var hagnaður eftir skatta 1,8 milljarðar króna. Vöxturinn er því töluverður milli ára.

2,5 milljarða skattaspor

Í ársreikningnum kemur fram að félagið muni greiða 532 milljónir króna í tekjuskatt í ríkissjóð á þessu ári vegna rekstrarársins. Áætlaður greiddur virðisaukaskattur er 332 milljónir króna og var skattspor félagsins á síðasta ári um 1,7 milljarðar króna. Áætlað skattspor þessa árs er 2,5 milljarðar króna. 

Eiginfjárhlutfall Bláa Lónsins hf. var 52% um síðustu áramót.

„Vöxtur Bláa lónsins undanfarin ár hefur verið í takt við þróun ferðaþjónustunnar, sem í nú aflar þjóðinni meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein. Nýtt met var sett í fjölda heimsókna í Bláa lónið árið 2015 en þær voru 919 þúsund talsins,“ er haft eftir Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, í afkomutilkynningu. 

Bláa lónið er í dag stærsti vinnuveitandinn í Grindavík og einn stærsti vinnuveitandinn á Suðurnesjum en í sumar munu yfir 500 manns starfa hjá Bláa lóninu.

Í ársreikningi kemur fram að laun stjórnar og forstjóra hafi samtals numið 651 þúsund evrum á síðasta ári, eða 91 milljón króna á núverandi gengi. 

Breytingar á Bláa lóninu hafa staðið yfir.
Breytingar á Bláa lóninu hafa staðið yfir.

Uppbyggingarskeið stendur yfir

Í ávarpi forstjóra í ársskýrslu fyrirtækisins er bent á að mikið uppbyggingarskeið standi yfir hjá Bláa lóninu. Upplifunarsvæði Bláa lónsins hefur verið  stækkað um helming. Nýtt spa-upplifunarsvæði, sem tengir núverandi lón og nýtt 60 herbergja lúxushótel, er í byggingu og lýkur þeim framkvæmdum um mitt næsta ár. 

Þá er framkvæmdum við stækkun Lækningalindar, sem nú ber nafnið Silica Hotel, lokið og hefur 20 nýjum herbergjum verið bætt við mannvirkið auk þess sem núverandi 15 herbergi hafa verið endurnýjuð. Þá hafa stoðeiningar eins og lagerrými og þvottahús verið fluttar af hagkvæmniástæðum í þéttbýliskjarnann í Grindavík. Framkvæmdum við nýtt lagerhúsnæði þar er lokið en framkvæmdum við nýtt þvottahús lýkur nú í sumar.

Grímur á stóran hlut

Stærstu hluthafar Bláa lónsins eru Hvatnig slhf., með 39,1% hlut, HS Orka með 30% hlut, Keila ehf. með 9,2% hlut og Hofgarðar ehf. með 4,9% hlut.

Hvatn­ing slhf. er í 50,55% eigu einka­hluta­fé­lags­ins Kólfs og 49,45% eigu Horns II slhf.

Kólfur ehf. er í 75% eigu Gríms Sæmund­sen og 25% eigu Eðvards Júl­í­us­son­ar. Eðvard er fyrr­ver­andi bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Grinda­vík og átti sæti í stjórn Hita­veitu Suð­ur­nesja, fyrirrennara HS Orku.

Horn II slhf. er fram­taks­sjóður sofn­aður af Lands­bréf­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK