Verða þeir þess virði?

Sjálfboðaliði hoppar upp í loft fyrir framan ólympíuþorpið í Ríó …
Sjálfboðaliði hoppar upp í loft fyrir framan ólympíuþorpið í Ríó á mánudaginn. AFP

Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn við Ólympíuleikana sem hefjast á morgun í Ríó verði gríðarlegur, eða um 2,2 milljarðar bandaríkjadalir. Hægt er að gera ráð fyrir því að kostnaðurinn verði þó meiri fyrir brasilísku þjóðina en um sextíu ár eru síðan að kostnaður við Ólympíuleika fór ekki fram úr áætlunum. 

Samkvæmt grein Council on Foreign Relations jókst kostnaður Ólympíuleikana jókst hratt eftir miðja síðustu öld en hagnaðurinn sömuleiðis. Þó myndast alltaf umræða um það álag sem lagt er á borgirnar sem halda leikina og íbúa þeirra og er árið í ár engin undatekning og hafa vaknað upp spurningar hvort þetta sé allt þess virði.

Var eitt sinn viðráðanlegt

Það er almennt álit hagfræðinga að ágóðinn að því að halda leikana sé þó yfirleitt nokkuð ýktur og í sumum tilfellum alls enginn. Mörg þeirra landa sem halda Ólympíuleikana standa uppi með miklar skuldir og viðhaldsskuldbindingar. Er það algengt mat að endurskoða ætti ferlið þar sem borgir eru valdar til þess að halda ólympíuleikana til þess að skapa hvatningu til raunsærra fjárhagsáætlana og sjálfbærra fjárfestinga sem gætu síðar komið almenningi til góðs.

Það er óhætt að segja að aðstæður til þess að halda viðburð eins stóran og Ólympíuleikana séu ekki eins góðar og á verður kosið í Ríó þessa dagana. Með aukinni glæpatíðni, skorti á fjármagni, undirmannaðri lögreglu og sjúkrahúsum og áhyggjum vegna Zika-veirunnar hefur neikvæð umræða farið af stað um kosti og galla þess fyrir borgina og íbúa hennar að halda leikana.

Stóran hluta tuttugustu aldarinnar var það nokkuð viðráðanlegt fyrir borgir að halda Ólympíuleikana. Þá voru þeir haldnir í þróuðum ríkjum, annað hvort í Evrópu eða Bandaríkjunum og þar sem að ekki var sýnt frá leikunum beint í sjónvarpi var ekki búist við sömu athygli og í dag. Þar af leiðandi var ekki gert eins mikið ráð fyrir hagnaði.

Þrjátíu ár að greiða „ólympíu-skuldir“

Að mati rithöfundarins Andrew Zimbalist, sem skrifaði bókina Circus Maximus: The Economic Gamble Behind Hosting the Olympics and the World Cup varð vendipunktur í sögu Ólympíuleikanna þegar að fjöldi þátttakenda tæplega tvöfaldaðist á áttunda áratugnum. Þá jókst fjöldi keppnisgreina um þriðjung og allir Ólympíuleikar sem haldnir hafa verið síðan á sjöunda áratugnum hafa farið fram úr áætluðum kostnaði.

Seint á sjöunda áratugnum fór fólk í auknum mæli að efast um ágæti leikanna, sérstaklega eftir að mótmælendur voru drepnir skömmu fyrir leikana 1968 í Mexíkó-borg og árás hryðjuverkamanna á lið Ísraels í leikunum 1972 í Munchen. Var það síðan sama ár sem fyrsta borgin hafnaði því að halda leikana. Það var bandaríska borgin Denver sem hafði verið valin en dró tilboð sitt til baka eftir að kosið var gegn því í atkvæðagreiðslu í borginni.

Fyrstu Ólympíuleikarnir sem áttu í alvöru fjárhagsvandræðum voru haldnir í Montréal 1976. Fyrirhugaður kostnaður var 124 milljónir bandaríkjadalir en hann fór upp um 2,6 milljarða, að mestu leyti vegna frestana í byggingarvinnu við nýjan leikvang. Þurftu skattgreiðendur í borginni að taka skuldina á sig sem tók tæpa þrjá áratugi að borga.

Frá ólympíuleikvanginum í Montréal. Það tók borgina 30 ár að …
Frá ólympíuleikvanginum í Montréal. Það tók borgina 30 ár að greiða skuldir vegna þeirra upp. Wikipedia Commons

Sluppu við að reisa ný íþróttamannvirki

Árið 1979 var Los Angeles eina borgin sem sóttist eftir því að halda Ólympíuleikana fimm árum síðar eða 1984. Það veitti borgaryfirvöldum yfirburðarstöðu gegn Alþjóða-ólympíunefndinni á samningaborðinu og þurftu þau ekki að heilla nefndina með því að lofa að byggja ný og dýr íþróttamannvirki. Nýttu þau sér nær eingöngu íþróttamannvirki sem þegar stóðu í borginni og þá græddu þau einnig á auknu sjónvarpsáhorfi á leikana. Í kjölfarið varð Los Angeles fyrsta borgin frá árinu 1932 sem skilaði hagnaði eftir að hafa haldið leikana en hann var um 215 milljónir bandaríkjadalir.

Við setningarathöfn Ólympíuleikanna í Los Angeles 1984.
Við setningarathöfn Ólympíuleikanna í Los Angeles 1984. Wikipedia Commons

Síðan þá hafa fjölmargir gríðarlega dýrir Ólympíuleikar verið haldnir en engir eins dýrir og Vetrarólympíuleikarnir í Sochi í Rússlandi árið 2014 en þeir voru taldir hafa kostað ríkiskassann 51 milljarð bandaríkjadali. Þá kostuðu Ólympíuleikarnir í Peking í Kína árið 2008 44 milljarða bandaríkjadali. Bretar sluppu töluvert betur þegar þeir héldu Ólympíuleikana 2012 en þeir kostuðu alls 10,4 milljarða bandaríkjadali.

Voru tilbúnir að sýna sig og sjá aðra

Á heimasíðu leikanna er gert er ráð fyrir því að Ólympíuleikarnir í Ríó muni kosta 2,26 milljarða bandaríkjadala. Þó er það skoðun sumra að Brasilíumenn muni borga mun hærri upphæð eða allt að 11 milljarða fyrir leikana. Þess má geta að heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fór í landinu 2014 kostaði 15 milljarða bandaríkjadali.

Fyrir sjö árum þegar að Ríó vann sér inn að fá að halda leikana voru aðstæður öðruvísi en þær eru í borginni nú. Með malandi efnahagi þar sem olía hafði nýlega fundist við strendur landsins voru Brasilíumenn tilbúnir að sýna sig og sjá aðra. Nú er öldin önnur þar sem olíuverð hefur hríðlækkað og efnahagurinn í slæmu standi.

Það veit enginn fyrir víst í hvernig ástandi brasilískur efnahagur verður eftir leikana, en það er lítið sem ekkert sem bendir til þess að þeir muni bæta líf fólksins í borginni. Hvort þeir verði þess virði er erfitt að segja til um.

Við æfingu brasilíska liðsins í sundfimi.
Við æfingu brasilíska liðsins í sundfimi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK