Virkilega góð viðbót við markaðinn

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Kauphöllin hefur samþykkt umsókn stjórnar Skeljungs hf. um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Samþykkið er háð því að félagið uppfylli skilyrði reglna um dreifingu hlutafjár fyrir fyrsta viðskiptadag.

Skeljungur birti skráningarlýsingu fyrir félagið í Morgunblaðinu í gær. 

„Þetta er virkilega góð viðbót við markaðinn,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við mbl.is aðspurður um komu Skeljungs í Kauphöllina. „Við erum með á markaðinum fyrirtæki í þessum geira en með aðeins aðra starfsemi þannig þetta er bara mjög jákvætt.“

Miðað er við að skráningardagur Skeljungs í Kauphöllinni verði 9. desember með þeim fyrrnefnda fyrirvara að félagið uppfylli dreifingaskilyrði. Sá fyrirvari er gerður við allar nýjar skráningar að sögn Páls.

Skeljungur verður að öllum líkindum eina nýja félagið sem verður skráð í Kauphöllina á þessu ári en að sögn Páls standa nú yfir viðræður um tvö félög. Ekki er hægt að greina frá nöfnum fyrirtækjanna en málin eru nú í undirbúningsfasa. „Við reiknum með að fá fleiri skráningar á markað á næstunni, vonandi ekki seinna en á fyrsta ársfjórðungi næsta árs,“ segir Páll.

Almennt útboð á hlutabréfum í Skeljungi hefst klukkan 12, mánudaginn 28. nóvember og lýkur því klukkan 16 miðvikudaginn 30. nóvember. Útboðið tekur til  493.401.789 hluta sem samsvarar 23,5% hluta í félaginu. Áskilinn er réttur til að stækka útboðið í allt að 661.368.368 hluti, sem samsvarar 31,5% hluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK