„Þeim mun meiri kraftur í kerfinu, þeim mun hærri vextir“

Seðlabankinn heldur meginvöxtum sínum óbreyttum á grundvelli nýjustu ákvörðunar peningastefnunefndar bankans. Eru þeir því 9,25%. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri segir raunvexti hafa farið hækkandi en meira þurfi til.

Mbl.is náði tali af Ásgeiri að loknum kynningarfundi þar sem yfirlýsing peningastefnunefndar var lesin upp og rædd.

Tæplega 5% hagvöxtur nú

„Þeir eru núna einhversstaðar í kringum tvö til þrjú prósent. Við hefðum viljað sjá þá hækka. Ég veit ekki alveg hversu mikið en það sem við sjáum er að það er gríðarlega mikill hagvöxtur í landinu. Það var rúmlega 7% hagvöxtur í fyrra og tæplega 5% á fyrri hluta ársins. Og þetta er mikill hagvöxtur. Þá verðum við að spyrna á móti og þá verðum við hafa háa  raunvexti. Svo verðum við einhvern veginn að meta það. Þeim mun meiri kraftur í kerfinu, þeim mun hærri vextir. En við þurfum hins vegar jákvæða raunvexti.“

Nú heldur ritstjóri Vísbendingar því fram að raunhæft sé að búa við neikvæða raunvexti í hagkerfinu nú um stundir. Hver er afstaða bankans til þess?

„Það er algjörlega útilokað núna og það er það sem allir seðlabankar í Evrópu og annarsstaðar eru jákvæðir raunvextir til þess að hafa hemil á kerfinu. Það sem við erum að vona er að við náum mjúkri lendingu þannig að verðbólga gangi niður samhliða því að hagvöxtur gangi niður. Þannig að það er ekkert ómögulegt að við sjáum verðbólgu og samdrátt í efnahagslífinu, t.d. ef næstu kjarasamningar fara illa. Þá gætum við þurft að halda vöxtum háum jafnvel þótt það sé samdráttur í kerfinu. Það er ekki staða sem við myndum vilja sjá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK