Byrjaði á Facebook en stefnir nú á útrás

María Lena leggur nú drög að útrás með íþróttafatnað M …
María Lena leggur nú drög að útrás með íþróttafatnað M Fitness. Áhersla er lögð á fjölbreytt snið.

Gaman hefur verið að fylgjast með vexti íslenska íþróttafatamerkisins M Fitness.

María Lena Heiðarsdóttir Olsen, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir samtals átta manns starfa þar í dag en verslanir M Fitness eru orðnar tvær eftir opnun nýrrar búðar við Tryggvabraut á Akureyri fyrr í vetur.

Á dögunum bættist síðan fataverslunin River á Egilsstöðum við félagið en þann rekstur keypti María Lena af foreldrum sínum. Þá heldur M Fitness úti vefverslun, starfrækir verslun á Stórhöfða og selur vörur sínar hjá smásölum hringinn í kringum landið.

Röðin náði langt út á götu þegar verslunin var opnuð …
Röðin náði langt út á götu þegar verslunin var opnuð á Akureyri.

Stærsta skrefið

Spurð hvort eitthvað torveldi uppbyggingu rekstrar af þessu tagi segir María Lena að stærsta skrefið hafi verið að ráða fyrsta starfsmanninn og að vert væri að skoða hvort það geti verið hvetjandi fyrir atvinnulífið og hagkvæm leið til að skapa ný störf ef létta mætti frumkvöðlum þetta byrjunarskref.

Sjálf fór María Lena mjög hægt af stað og seldi íþróttafatalínuna sína fyrst í gegnum Facebook:

„Það fylgir því drjúgur kostnaður að koma fyrirtæki á laggirnar og fátt í boði sem beinlínis styður við þá sem vilja skapa einhvers konar verslunarrekstur frá grunni. Húsnæði er dýrt, fjármögnun sömuleiðis, launatengdur kostnaður hár og ekki hægt að segja að umhverfið sé auðvelt viðureignar,“ segir hún.

„Ég hugsa að það myndi hjálpa mikið ef einhvers konar afsláttur, eða betri kjör, stæðu nýstofnuðum fyrirtækjum af þessu tagi til boða.“

Sagan hófst með sólbaðsstofu í bílskúrnum

Sjálf hefur María Lena farið sér í engu óðslega og má heyra að hún lærði varkárnina af móður sinni sem byggði rekstur River á Egilsstöðum upp hægt og rólega.

„Ég var tíu ára þegar hún mamma opnaði ljósastofu í bílskúrnum heima hjá okkur. Sú starfsemi þróaðist út í að vera með nærföt og náttföt til sölu og að lokum bættist við ein slá af fötum. Viðtökurnar voru svo góðar að allar þær flíkur sem teknar voru inn seldust upp á augabragði og dugaði það til að sannfæra mömmu um að pláss væri fyrir nýja fatabúð á Austurlandi,“ segir María Lena söguna.

„Mig minnir að það hafi verið 2011 sem foreldrar mínir fluttu fyrirtækið úr bílskúrnum og yfir í verslunarhúsnæði í miðbæ Egilsstaða og fóru meira að segja ljósabekkirnir með – en fljótlega varð útséð um að sólbaðsstofureksturinn ætti heima undir sama þaki.“

María Lena að störfum á lager verslunarinnar í Reykjavík.
María Lena að störfum á lager verslunarinnar í Reykjavík.

Bongóblíðan á Austurlandi

Strax á fyrsta degi fékk M Fitness á Akureyri góðar viðtökur og hefur rekstur River á Egilsstöðum verið í miklum blóma um árabil. Þykja verslanirnar gott dæmi um þann uppgang sem hefur verið í verslun á landsbyggðinni á undanförnum árum og er nú svo komið að víða um land má finna mjög áhugaverðar búðir í fámennum bæjum sem ferðalangar leggja sig jafnvel sérstaklega fram við að heimsækja til að sjá vöruúrvalið.

„Á Egilsstöðum hefur fjölgun ferðamanna vissulega hjálpað og við fáum þar m.a. töluvert af gestum af ferjum og skemmtiferðaskipum. Svo má ekki gleyma hvað Íslendingar eru duglegir að ferðast um landið á sumrin og liggur straumurinn í bongóblíðuna á Austurlandi svo að hótelin og tjaldstæðin fyllast og það er alveg vitlaust að gera í versluninni á meðan,“ segir María Lena.

Flíkurnar sem River selur hafa María Lena og móðir hennar valið í sameiningu á kaupstefnu sem haldin er í Kaupmannahöfn tvisvar á ári.

„Þar koma saman alls konar merki alls staðar að úr heiminum og er einfaldlega hægt að panta úr öllum áttum það sem við teljum að falli í kramið hjá viðskiptavinum okkar,“ segir hún en úrvalið skiptist nokkurn veginn til helminga á milli vandaðs tískufatnaðar annars vegar og íþróttafatnaðar hins vegar og hefur vörum M Fitness vitaskuld verið gert hátt undir höfði.

Vill í útrás með snið sem passa

Fyrir utan opnun verslunarinnar á Akureyri segir María Lena að kjarnastarfsemi M Fitness hafi haldist nokkuð óbreytt undanfarin ár en veigamesta framtíðarverkefni félagsins er að hefja útflutning og koma merkinu á framfæri erlendis.

Vörur M Fitness eru hannaðar í Reykjavík en saumaðar í Tyrklandi og Kína og segir María Lena að framleiðslan hafi gengið vandræðalaust fyrir sig þrátt fyrir hræringar í efnahagslífi framleiðslulandanna.

„Nú sem endranær felst sérstaða M Fitness ekki síst í því að bjóða upp á mikinn fjölbreytileika í sniðum til að endurspegla raunverulegt vaxtarlag venjulegra kvenna. Sumar eru með stærri og aðrar með minni brjóst; sumar með breiðar mjaðmir og aðrar mjóar; sumar með stærri maga eða styttri lappir, og bjóðum við upp á snið og síddir sem endurspegla þetta. Fyrir vikið eru flíkurnar klæðilegri og veita betri stuðning, og ég hef ekki enn upplifað að kona hafi komið í búðina til okkar og ekki getað fundið íþróttafatnað við sitt hæfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK