Draumurinn er að fleiri sjái handritin

Sameiginlegur skilningur er á milli íslenskra og danskra menntamálayfirvalda um …
Sameiginlegur skilningur er á milli íslenskra og danskra menntamálayfirvalda um að ræða framtíð þeirra um 700 handrita úr safni Árna Magnússonar sem varðveitt eru af Kaupmannahafnarháskóla. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem segist fagna allri umræðu um handritin.

Sameiginlegur skilningur er á milli íslenskra og danskra menntamálayfirvalda um að ræða framtíð þeirra um 700 handrita úr safni Árna Magnússonar sem varðveitt eru af Kaupmannahafnarháskóla. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem segist fagna allri umræðu um handritin.

„Íslensk og dönsk menntamálayfirvöld komust að samkomulagi um að koma á fót samráðshópi sem fara á yfir málefni handritanna til frambúðar og hvernig hægt sé að auka veg og virðingu þeirra. Það hefur ekkert breyst,“ segir Lilja. 

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Haraldur Jónasson/Hari

Segir að handritin eigi heima í Danmörku

Anne Mette Hansen,  lektor við stofn­un nor­rænna fræða og tungu­mála við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla, sagði í viðtali við danska dagblaðið BT að þau um það bil 700 handrit úr handritasafni Árna Magnússonar, sem varðveitt væru af Kaupmannahafnarháskóla, ættu að vera þar áfram þar sem þau væru hluti af dönskum menningararfi. Vel gæti farið svo að einhver handritanna yrðu lánuð Árnastofnun þegar hún yrði komin í Hús íslenskra fræða.

Hansen sagði í viðtalinu að Kaupmannahafnarháskóla hefði ekki verið skýrt frá því hvaða handritum væri falast eftir til Íslands. 

Úr Flateyjarbók.
Úr Flateyjarbók. Hanna Andrésdóttir

Aðstaða á heimsmælikvarða

„Við erum að fjárfesta í Húsi íslenskra fræða, Húsi íslenskunnar, þar sem við verðum með aðstöðu á heimsmælikvarða til þess að kynna handritin í nútímanum og til framtíðar. Við viljum að almenningur geti séð þau í meiri mæli en nú er. Þetta er líka þáttur í því að efla umgjörð íslenskunnar, sem er lykillinn að því að börnunum okkar vegni vel,“ segir Lilja.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar. Kristinn Magnússon

Fyrir skömmu ákváðu íslensk stjórnvöld að fjármagna stöðu lektors í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla, en til stóð að leggja þá stöðu af vegna niðurskurðar. Það var gert að frumkvæði Lilju, sem segir mikilvægt að hlúa að rannsóknum og fræðastarfi í norrænum tungumálum. „Tungumálið er grunnurinn að öllu, grunnur að því að við skiljum Íslendingasögurnar og mikilvægi þessara handrita. Ef þrengt er að norrænum fræðum og norrænum tungumálum; hvaða framtíð eiga þau?“

Áhrif handritanna eru víða

Lilja fór fyrir nokkru í heimsókn í Kaupmannahafnarháskóla ásamt Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Árnastofnunar, og kynnti sér aðbúnað handritanna. „Rannsóknarstarfsemi þarna er mjög góð. En handritin eru ekki til sýnis fyrir almenning. Það er minn draumur að fólk geti skoðað þessar þjóðargersemar okkar. Og það er tilgangurinn með því að vilja fá fleiri handrit heim. Ég vil styrkja sýnileika þeirra, ekki síst í hugum unga fólksins,“ segir Lilja.

„Það er svo merkilegt að þessi handrit hafi verið skrifuð hérna og þessi ríka sagnahefð okkar er grunnurinn að svo mörgu sem við erum að gera í samtímanum. Við sjáum þessi áhrif víða; til dæmis í Marvel-teiknimyndasögunum, í listsköpun. Áhrifin eru ekki hér á landi, heldur alls staðar á Norðurlöndunum og í raun alls staðar í heiminum,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert