Vetrarblæðingar eru ráðgáta

Malbiksblæðingar geta valdið varanlegu tjóni á vegum og bifreiðum.
Malbiksblæðingar geta valdið varanlegu tjóni á vegum og bifreiðum. mbl.is/​Hari

Blæðingar í slitlögum á vegakerfum verða alls staðar í heiminum. Orsök þeirra eru að einhverju leyti ráðgáta en vitað er að þær verða frekar undir ákveðnum kringumstæðum. Þetta kom fram í málstofu Vegagerðarinnar, „Blæðingar í bundnu slitlagi – hvað er til ráða?“ sem haldin var í dag.

Blæðingar verða á klæðningu malbikaðra vega á veturna annars vegar og sumrin hins vegar.

Á veturna virðist blæðing koma upp um lítil augu í klæðningunni. Aðstæður sem geta skapað blæðingu að vetri til er mikil þungaumferð um vegi og veðurfar sem einkennist af endurteknum breytingum á hita um og yfir frostmark eða þíða eftir frostkafla þegar þurrt er.

Stór hluti af hönnun malbiks er að ákvarða kornastærðir þess og kornakúrfu til að tryggja nægilega holrýmd í malbiki eftir þjöppun þess. 

Við malbiksblæðingar geta tjörukögglar losnað upp og valdið tjóni á …
Við malbiksblæðingar geta tjörukögglar losnað upp og valdið tjóni á bifreiðum. Ljósmynd/Umferðarstofa

Bikið blandast vatninu

„Með nægilegri holrýmd fær malbikið, bindiefninu, tækifæri til að þenjast og slakna, herpast saman og hreyfast til að án þess að það komi upp á yfirborðið. Þess vegna er holrýmd mikilvæg, bæði til að tryggja að það verði ekki blæðingar og að það sé burður í malbikinu og að það komi ekki hjólför undan þungaumferð,“ sagði Birkir Hrafn Jóakimsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Talið er að innilokað vatn verði fyrir miklum þenslusveiflum svo að bikið umhverfis blandist vatninu og úr verði svokölluð blikþeyta sem þrýstist svo upp við réttar aðstæður. 

Farið var yfir að blæðingar vega verða alls staðar í heiminum og séu þekkt vandamál í t.d. Svíþjóð, Bandaríkjunum og jafnvel á Nýja-Sjálandi sem þó er talið mjög framarlega þegar kemur að lagningu malbiks. 

Einnig kom fram að til þess að komast til botns í orsökum blæðinga þurfi að starfa þverfaglegur hópur sem nær m.a. yfir efnafræði, jarðfræði m.t.t. sýrustigs bergs, umferðarálagsgreiningar og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert